Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) gerði í september árið 2006 viðskiptasamning við Landsbankann um reikningslánalínu að fjárhæð 1.000 milljónir króna vegna framkvæmda við Laugardalsvöll. Samningurinn gilti til 1. ágúst árið 2007.

Frá 25. september 2006 til 30. júlí árið 2007 dró KSÍ átta sinnum á lánið. Samtals nam upphæðin 635 milljónum króna. Þótt fjárhæðin hafi verið greidd út í íslenskum krónum var um að ræða gengislán, sem var til helminga í svissneskum frönkum og japönskum jenum. KSÍ byrjaði að greiða inn á lánið strax á árinu 2007 og var síðasta greiðslan innt af hendi í september árið 2009. Nam heildargreiðslan þá samtals 1.017 milljónum króna.

Í kjölfar gengislánadóma sem hér féllu höfðaði KSÍ mál gegn Landsbankanum og féll dómur KSÍ í vil um mitt síðasta ár. Í dómsorðinu segir að lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Í skýringum í ársreikningi sambandsins fyrir síðasta ár kemur fram að Landsbankinn hafi áfrýjað málinu til Hæstaréttar Íslands og að búist sé við niðurstöðu á þessu ári.

„Það eru verulegir hagsmunir í húfi fyrir okkur í þessu dómsmáli,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. „Þetta getur hlaupið á nokkur hundruðum milljóna fyrir okkur.“

Nánar er fjallað um fjármál KSÍ og annarra íþróttasambanda í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .