EFTA-dómstóllinn hefur eins og flestir vita gefið ráðgefandi álit í tveimur dómsmálum sem snúa að verðtryggðum íslenskum lánum. Í síðustu viku birti dómstóllinn álit í mál Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum og í lok ágúst birti hann álit í máli Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka. Almennt var gert ráð fyrir að þessi tvö mál færu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur einhvern tímann á fyrstu mánuðum næsta árs.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er enn eitt verðtryggingarmálið fyrir dómstólum. Er það mál sem þau Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir höfðuðu gegn Íbúðalánasjóði vegna húsnæðisláns sem þau tóku í sjóðnum. Þetta mál er merkilegt fyrir margra hluta sakir en þó aðallega vegna þess að í því má segja að tekist sé á um öll þau atriði sem tekist er á um í málum Gunnars og Sævars Jóns.

Aðalmeðferð í málinu gegn Íbúðalánasjóði átti að hefjast á mánudaginn kemur en henni hefur nú verið frestað. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Héraðsdómur Reykjavíkur ákveðið að sameina öll þessi mál sem og nauðungarsölumál gegn Arion banka. Er stefnt að því að sameiginlegt þinghald fari fram í janúar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .