Auglýsingastofan SAHARA heldur ráðstefnu fyrir markaðsfólk þann 5. nóvember í Gamla bíói. Þar munu stíga á stokk erlendir fyrirlesarar frá stórfyrirtækjum eins og Smirnoff, TikTok, Spotify, SemRush, Hubspot og Nike, og ræða stöðu og framtíðarhorfum í stafrænni markaðssetningu.

„Við sjáum fyrir okkur frábæran dag í nóvember þar sem 400 íslenskir markaðsmenn koma saman og heyra hvað þetta frábæra fagfólk hefur að segja okkur," segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara.

„Okkur hefur lengi dreymt um að geta haldið sambærilega ráðstefnu hér á landi eins og við höfum sótt í til dæmis San Diego, Texas, Köln og London. Við vildum færa þetta nær okkur og fá íslenskt markaðsfólk með okkur í lið."

Að sögn Davíðs hefur miðasalan farið vel af stað og segir hann greinilegt að markaðsfólk sé æst í að hittast í raunheimum eftir langt tímabil inniveru og heimavinnu.