Eitt orð lýsir ágætlega hugbúnaðarrisunum Google, Apple og Microsoft; Peningavélar. Rekstur þessara hugbúnaðarrisa eru um margt ótrúlega stöndugur og lýsandi fyrir velgengni þessara fyrirtækja. Þótt vörumerkin hafi yfir sér ólíkt yfirbragð þá eru rekstrartölurnar góðar. Google átti í árslok 35 milljarða dollara, ríflega 4.000 milljarða króna, í beinhörðum peningum. Apple var með um 40 milljarða dollara í árslok 2010 og Microsoft 36 milljarða. Efnahagsreikningur síðastnefnda fyrirtækisins er hins vegar mun stærri en Google og Apple. Í árslok 2010 voru heildareignir metnar á 86 milljarða dollara. Árið var hið tekjuhæsta í sögu fyrirtækisins, en heildartekjur námu um 62 milljörðum dollara, 7.113 milljörðum króna, samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins. Það sem vegur þyngst er sala á Windows stýrikerfinu inn í PC tölvur á markaði en sala á Office pakkanum er stór tekjuliður í bókhaldinu.

Rekstur Apple hefur umturnast á skömmum tíma. Ipod, Iphone og Ipad vörumerkin seljast eins og heitar lummur og hafa byggt upp stórveldi. Um mitt þetta ár átti Apple meira en 74 milljarða dollara í lausu fé, litlu meira en bandaríska ríkið á sama tíma. Það er vart hægt að hugsa sér betri stöðu í því erfiða árferði sem nú ríkir á mörkuðum. Fullir vasar fjár og eignir að hríðalækka í verði.

Harður slagur

Það verður ekki annað sagt en að slagurinn í hugbúnaðargeiranum sé harður líkt og lesa mátti í umfjöllun á tæknisíðu Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Google og Apple eru að fikra sig áfram inn í farsímageirann - hratt. Iphone frá Apple og símar með Android stýrikerfi frá Google stækka markaðshlutdeild sína sífellt. Google tók raunar risaskref í sóknarleik sínum á farsímamarkaði í upphafi vikunnar. Þá keypti fyrirtækið farsímaframleiðandann Motorola fyrir 12,6 milljarða dollara eða sem nemur tæplega1.500 milljörðum króna. Motorola hefur til þessa verið einn helsti samstarfsaðili Google þegar kemur að símum með Android búnað. Í ljósi gríðarlega sterkrar fjárhagsstöðu þá eru kaupin rökrétt framhald á hraðri umbreytingu félagsins. Frá því að vera fyrst og fremst hugbúnaðarfyrirtæki í að vera bæði hugbúnaðar- og fjarskiptafyrirtæki.

Þunglamalegt

Microsoft er ekki í sömu stöðu og Apple og Google þegar kemur að vinsældum. Vörumerkið Microsoft hefur ekki átt sjö dagana sæla þegar kemur að mati ýmissa sérfræðinga. Þannig taldi sérfræðingur JP Morgan að Microsoft þyrfti að spýta í lófana ef fyrirtækið ætlaði ekki að missa af lestinni þegar kæmi að framþróun tölvuiðnaðarins fyrir snjallsíma og spjaldborðstölvur. Nú þegar hefur Microsoft brugðist við þessu með samstarfi við Nokia, sem hefur átt í erfiðleikum með að fylgja eftir örri þróun. Fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Microsoft, Stephen Elop, hefur nú tekið við stjórnartaumunum hjá Nokia og hyggst efla vöruþróun fyrirtækisins til mikilla muna í samstarfi við Microsoft.

Samfélagsmiðlarnir

Allir risarnir þrír hafa verið að tengja sig sífellt meira við samfélagsmiðlana, s.s. Facebook, Twitter og Linkedin. Hegðun neytenda er að breytast hratt frá því sem áður var ekki síst vegna samfélagsmiðlanna. Fólk eyðir tímanum á netinu með allt öðrum hætti nú en áður, sem opnar tækifæri fyrir hugbúnaðarfyrirtæki. Ekki síst í snjallsímum og spjaldtölvum. Framþróunin á þessum vettvangi snýr ekki síst að því að hugbúnaðarfyrirtækin nái að taka til sín hluta af auglýsingatekjunum sem vaxa ógnarhratt. Hálfgerð hagkerfi eru að verða til í snjallsímum og spjaldtölvum og auglýsendur vilja að komast þar að með kynningar.