Velta fjögurra stóru endurskoðunarfyrirtækjanna hér á landi jókst um 12% á síðasta rekstrarári og nam tæplega 12 milljörðum króna. Hagnaður KPMG og PwC dróst saman um ríflega fimmtung en hagnaður KPMG jókst um 57% milli ára og um 3% hjá Ernst & Young. Samanlagt jókst hagnaður félaganna fjögurra um 3% milli ára og nam 953 milljónum króna sem er mesti hagnaður félaganna undanfarin fimm ár. Tekjur allra félaganna jukust milli ára. Mestur varð vöxturinn hjá Deloitte, en tekjur fyrirtækisins jukust úr 3,55 milljörðum í 4,2 milljarða króna á milli ára. Hjá KPMG, stærsta félaginu, jukust tekjur úr 4,9 milljörðum króna í 5,2 milljarða króna eða um 6% á milli ára.

Hjá PwC jukust tekjur úr 1,44 milljörðum í 1,58 milljarða króna eða um 10% og um 14% hjá Ernst & Young þar sem rekstrartekjur fóru yfir milljarð. Alls fjölgaði stöðugildum um 9% á milli ára úr 573 í 624 milli ára. Mest fjölgaði stöðugildum hjá Deloitte eða úr 183 í 204. Þá fjölgaði störfum hjá Ernst & Young úr 50 í 59. Meðeigendur félaganna fjögurra voru 99 á síðasta rekstrarári. Félögin greiddu samanlagt 912 milljónir króna í arð í fyrra sem samsvarar nær öllum hagnaði síðasta reikningsárs, sem nam 925 milljónum króna. Undanfarin ár hafa félögin í flestum tilfellum greitt álíka upphæð í arð og samsvarar hagnaði fyrra reikningsárs.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .