Bandaríski lyfjarisinn Pfizer hefur áform um að taka yfir evrópska lyfjafyrirtækið AstraZeneca. Viðræður hófust upphaflega stuttu eftir áramótin síðustu. Fulltrúar AstraZeneca slitu þeim um miðjan janúar, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins ( BBC ) af málinu. Forsvarsmenn Pfizer tóku nýverið upp þráðinn að nýju. Stjórn AstraZenece er hins vegar treg í taumi og því sendi stjórn Pfizer hluthöfum AstraZeneca tilboð í dag.

BBC segir Pfizer bjóða hluthöfum AstraZeneca um 30% hærra verð en gengi bréfa félagsins á markaði. Taki hluthafar því geti kaupin kostað Pfizer 65 milljarða punda, jafnvirði rúmra 12 þúsund milljarða íslenskra króna.

BBC segir Pfizer eiga að ráða við kaupin enda sitji fyrirtækið á háum fjárhæðum í sjóðum víða sem fyrirtækið hafi komið sér upp til að lækka skattgreiðslu í Bandaríkjunum.