Arctic Trucks í Noregi hefur undanfarin ár, í samstarfi við hollenska fyrirtækið Tembo e-LV, unnið að lausnum til að breyta Toyota Hilux og Land Cruiser 70 dísel- og bensínbílum í rafmagnsbíla. Nýverið gerðu fyrirtækin með sér samning um að Arctic Trucks myndi breyta á bilinu 400 til 800 bílum í rafmagnsbíla til notkunar í Skandinavíu en Tembo framleiðir rafmagnsbúnaðinn. Bílarnir koma til með að vera notaðir í erfiðum aðstæðum líkt og við námuog gangnavinnu, en einnig er stefnt að því að fá gerðarviðurkenningu fyrir götunotkun svo að bílarnir nýtist utan vinnusvæða.

Markaðurinn stærri en búist var við

Örn Thomsen, framkvæmdastjóri Arctic Trucks í Noregi, segir markaðinn fyrir þessa bíla vera stærri en hann bjóst við en verðmæti samningsins gæti verið um 58 milljónir Bandaríkjadollara, um sjö milljarðar króna. „Verktakafyrirtæki vilja í meiri mæli nota rafmagnsbíla í námum og göngum. Bæði til að vera umhverfisvænni og þó að þetta séu dýrari bílar eru rekstrarlegir plúsar í þessu. Sérstaklega í neðanjarðarnámum en þá þarf stórt og mikið loftræstikerfi til að hreinsa loftið ef það eru díselbílar eða gröfur. Svo er mikið af brekkum í námum og þú losnar við mikið af bremsuryki af því að rafmagnsmótorinn heldur við," segir framkvæmdastjórinn Örn Thomsen.

Erfitt getur þó reynst að breyta bílunum. Það er kostnaðarsamt og svo eykst eigin þyngd bílsins við breytinguna og þá þarf að passa að burðagetan haldist sú sama svo að bíllinn fá gerðarviðurkenningu. „Það er tvennt ólíkt að búa til bíl sem er vinnuvél og verður einungis notuð á lokuðum svæðum og bíl sem er viðurkenndur til veganotkunar. Það er líka ólíkt í kostnaði og vinnu en það verður aldrei öllum bílum skipt út fyrir rafmagnsbíla. Bæði er dýrt að breyta þeim því þú kaupir bíl sem er tilbúinn til notkunar, tekur alla dýrustu hlutina úr honum og setur nýjan mótor og batterí, sem eru dýrustu hlutirnir í rafmagnsbíl.“

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .