J Sainsbury, næst stærsti smásali í Bretlandi, mun taka yfir Asda dótturfélag Walmart í Bretlandi en búist er við að sameinað félag verði stærsti matvöruseljandi Bretlands miðað við markaðshlutdeild. Samanlagt ráða félögin nú yfir 33% markaðshlutdeild í dag að því er Financial Times greinir frá.

Walmart mun fá 3 milljarða punda í reiðufé eða sem nemur 417 milljörðum króna og 42% hlut í sameinuðu félagi fyrir Asda sem var verðlagt á 7,3 milljarða punda samkvæmt samningnum. Walmart keypti Asda árið 1999 fyrir 6,7 milljarða punda.

Hlutabréfaverð Sainsbury hefur hækkað um 17% síðan fregnir bárust af yfirtökunni en bréf Tesco, stærsta matvörusala í Bretlandi, hafa lækkað um 1%.