Pfizer, stærsti lyfjaframleiðandi í heimi, er að undirbúa tilboð í einn af keppinautum sínum, Wyeth, upp á allt að 70 milljarða Bandaríkjadala. Gert er ráð fyrir að Pfizer greiði um 50 dali á hlut, sem er næstum 30% yfirverð frá markaðsverði í síðustu viku, að sögn WSJ.

Pfizer missir einkaleyfið fyrir stærsta lyf sitt, kólestróllyfið Lipitor, árið 2011, en Lipitor skilar um fjórðungi tekna Pfizer. Að sögn WSJ vonast Pfizer til að Wyeth, sem er orðið þriðja stærsta líftæknifyrirtæki í heimi, hafi nægt framboð lyfja til að bæta að mestu upp fyrir Lipitor.

Samkomulag kann að nást í næstu viku, að sögn WSJ. Nánast engar yfirtökur hafa verið frá því í haust vegna ástandsins á fjármálamörkuðum og samruni af þessari stærðargráðu væru því allnokkur tíðindi og til marks um að mögulegt er að eiga slík viðskipti þrátt fyrir ástandið.