Ástralski fjárfestingasjóðurinn MIRA hefur gengið frá samningum um kaup á meirihluta (54%) hlutafjár í HS orku. Kaupverðið er 37 milljarðar króna en kaupin eru háð samþykki félagsins Jarðvarma, sem er í meirihlutaeigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða. Jarðvarmi hefur tvo mánuði til að ákveða hvort það nýtir forkaupsrétt sinn á umræddu hlutafé eða samþykki kaupsamninginn. Gangi kaupin eftir munu 6% af orkuframleiðslu á Íslandi vera í höndum MIRA.

MIRAM, sem er stytting á Macquarie Infrastructure and Real Assets, er stærsti sjóður heims sem sérhæfir sig í fjárfestingum og eignastýringu á innviðum. MIRA er skráð sem evrópskt félag þrátt fyrir að vera dótturfyrirtæki ástralska fjárfestingabankans Macquarie Group Limited. Macquarie, sem er einn af stærstu bönkum Ástralíu og stýrir eignasafni upp á tæpar 500 milljarða ástralska dollara, jafngildi 43.000 milljörðum íslenskra króna.

Fjárfestingasjóðurinn MIRA er á íslenskan mælikvarða ævintýralega stór. Undanfarna tvo áratugi hefur sjóðurinn tekið þátt í fjárfestingum og eignastýringu á innviðum sem yfir 100 milljónir manna notast við á hverjum degi. Undir eignastýringu MIRA eru 400 eignir út um allan heim og 4,5 milljónir hektarar af landbúnaðarsvæði. Gangi kaupin eftir bætist HS Orka við þau 22 orkufyrirtæki sem fyrir eru í safni MIRA en að samanlögðu framleiða þau 12,2 GW af endurnýjanlegri orku árlega. Heildarverðmæti eigna í stýringu hjá sjóðnum er 111 þúsund milljarðar evra.

Stærsta eign HS Orka eru orkuverin í Svartsengi og á Reykjanesi. Þar að auki fer félagið með 30% hlut í Bláa lóninu, en athygli hefur vakið að verðmæti hlutarins í Bláa lóninu er aðeins 2,7 milljarðar króna í bókum HS Orku. Viðskipti voru með 20% hlut í Bláa lóninu í desember sl. þar sem fyrirtækið er metið á 50 milljarða króna. Auk þess hefur HS Orka hafnað tilboðum upp á 11 milljarða króna í eignarhlut sinn.

Jarðvarmi hefur tvo mánuði til að ákveða hvort fyrirtækið nýti forkaupsréttinn en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er ekki reiknað með að til þess komi heldur að kaup MIRA ganga eftir. Þó hafa þær raddir heyrst að þrýst sé á stjórnir lífeyrissjóðanna að þeir nýti réttinn, ekki á viðskiptalegum forsendum, heldur til að tryggja íslenskt eignarhald á fyrirtækinu. Í ljósi sögunnar og þeirra miklu deilna sem ríkt hafa um eignarhald félagsins er sá orðrómur mögulega ekki úr lausu lofti gripinn, en þótt í honum kunni að leynast sannleikskorn er talið afar ólíklegt að slíkar raddir fái hljómgrunn í stjórn Jarðvarma.

Í tilkynningu MIRA um samninginn er fjallað um virkjanakosti í eigu HS Orku sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Það má því leiða líkum að því að markmið MIRA með fjárfestingu sinni sé frekari vöxtur í bæði framleiðslu og sölu á raforku. Í umfjöllun vefmiðilsins Kjarnans er til að mynda vitnað í fjárfestingakynningu þar sem spáð er að rekstrarhagnaður HS Orku muni nær tvöfaldast á árinu 2023 og verði 7,3 milljarðar króna. Samþykki Jarðvarmi kaupin er reiknað með að gengið verði frá endanlegum samningi og kaupin greidd að fullu fyrir lok annars ársfjórðungs 2019 að því er kemur fram í tilkynningu MIRA.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .