Eigendur um 60% grískra ríkisskuldabréfa hafa gefið til kynna að þeir eru tilbúnir til að taka þátt í skiptasamningum sem leysa á Grikki úr skuldakreppunni um tíma. Samningarnir sem fela í sér að lánardrottnar gríska ríkisins skipta eldri ríkisskuldabréfum fyrir ný. Bloomberg-fréttaveitan segir þetta einhverja umsvifamestu uppstokkun á fjármálum sem nokkurt ríki hefur farið í gegnum.

Á meðal þeirra sem hafa samþykkt skuldbreytinguna eru stærstu bankar Grikklands, helstu lífeyrissjóðir landsins og um 30 evrópskir bankar og fjármálastofnanir. Þar á meal eru BNP Paribas í Frakklandi og Commerzbank í Þýskalandi.

Þessir lánardrottnar eiga grísk ríkisskuldabréf upp á um 124 milljarða evra, samkvæmt upplýsingum Bloomberg sem bætir við að í skuldaaflausn Grikkja verði kröfuhafar að afskrifa 53,5% af skuldabréfaeign sinni. Þessu samkvæmt er verðmæti nýju skuldabréfanna rúmlega helmingi minna en gömlu bréfanna, með lengri gjalddaga og bera lægri vexti. Í samræmi við það, samkvæmt útreikningum Bloomberg, tapa kröfuhafarnir um 70% af fjárfestingu sinni.