Hreinir rafmagnsbílar hafa selst mest allra bíla það sem af er ári með 35,4% af allri sölu til einstaklinga, þetta hlutfall var 11,9% á sama tíma í fyrra. Þar á eftir koma tengiltvinnbílar með 19% sölunnar í ár samanborið við 16,9% í fyrra. Sé horft til allra nýorkubíla samanlagt á árinu þá standa þeir undir 67,8% allrar sölu á fólksbílum til einstaklinga það sem af er ári. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu Bílgreinasambandsins.

Það sem af er árinu 2020 hafa einstaklingar keypt næstum jafn marga nýja fólksbíla og á sama tímabili 2019, eða 2031 bíl í ár samanborið við 2071 bíl í fyrra.

Er þetta þrátt fyrir minni sölu í apríl og maí þar sem varð 31,7% og 28,1% samdráttur í hvorum mánuði fyrir sig í sölu til einstaklinga og má rekja til þess árferðis sem hefur verið viðvarandi vegna COVID faraldursins.

Það sem af er ári hafa verið skráðir 629 nýir fólksbílar til bílaleiga en þeir voru 2959 talsins á sama tíma í fyrra, sem þýðir að það hefur orðið 78,7% samdráttur á milli ára.

Hafa almenn fyrirtæki, fyrir utan bílaleigur, keypt 708 nýja fólksbíla það sem af er ári en þeir voru 905 á sama tíma í fyrra. Þar hefur því orðið 21,8% samdráttur.