Stjórn kínversku netfyrirtækisins Alibaba er sögð hafa áform um að efna til útboðs með hlutabréf fyrirtækisins í næstu viku. Útboðið er enn eitt skrefið í skráningu hlutabréfa fyrirtækisins á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Um er að ræða risastóra skráningu sem er áætluð 18. eða 19. september. Um er að ræða risaskráningu en enda Alibaba með stærstu fyrirtækjum í heimi og er markaðsverðmæti fyrirtækisins talið nema um 200 milljörðum bandaríkjadala. Það er um tvöfalt meira en sem nemur samanlögðu verðmæti Amazon og eBay, samkvæmt útreikningum bandarísku fréttastofunnar CNN .

Velta Alibaba í fyrra nam tæpum 250 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 29 þúsund milljarða íslenskra króna. Alibaba á auk ýmissa smáfyrirtækja tvær netverslanir, Taobao og Tmall. Þær sinna um 80% af allri netverslun í Kína en heimsóknir á vefsíður þeirra eru um 100 milljónum talsins á degi hverjum.

Netverslunin var stofnuð árið 1999. Starfsmenn voru upphaflega 18 talsins. Þeir eru nú rúmlega 20 þúsund. Á meðal stærstu hluthafa er netrisinn Yahoo og japanski bankinn Softbank Corp. Stofnendur Alibaba og fleiri stjórnendur verslunarinnar eiga saman um 13% í fyrirtækinu.