Í smábænum Elk Point í Bandaríkjunum búa einungis 1.900 manns, talsvert færri en í Hveragerði. Nú er skyndilega komið málmleitartæki fyrir utan dómshúsið og fulltrúar risastórrar lögmannsstofu vinna hörðum höndum í hjólhýsum sem lagt hefur verið á aðalgötunni. Hvað er í gangi í þessum litla, óþekkta bæ í North-Dakota fylki?

Þessar breytingar í Elk Point má rekja til þeirrar staðreyndar að í bænum fer nú fram marg-milljarða Bandaríkjadala meiðyrðamál kjötframleiðandans Beef Products Inc. á hendur ABC sjónvarpsstöðinni. Fyrirtækið heldur því fram að ABC og fréttamaðurinn Jim Avila hafi vegið að æru fyrirtækisins þegar þeir kölluðu vörur þess „bleikt slím“ í sjónvarpsútsendingum árið 2012. BPI kallar kjötið sitt eitthvað allt annað. Reuters fjallar um málið .

Áætlað er að réttarhöldin taki átta vikur, en þau hófust síðastliðinn mánudag. ABC er hluti af Walt Disney samstæðunni, en talið er að erfitt verði fyrir BPI að sanna að ABC hafi raunverulega ætlað að valda fyrirtækinu skaða eða hafi vitað að fréttirnar væru ósannar. Bæjarbúar Elk Point, sem Reuters ræddi við í vikunni, hafa hins vegar mikla samúð gagnvart BPI og stofnandanum Eldon Roth.

„Ég keypti vörurnar hans og þetta voru góðar vörur. Ég trúði því ekki að fólk væri að láta þetta bull út úr sér,“ sagði einn íbúi til margra ára.

Annar íbúi, sem rekur litla verslun og selur eigið nautakjöt úr litlum ísskáp, segist eiga lítið sameiginlegt með iðnframleiðandanum BPI. Þrátt fyrir það finnst honum ABC hafa dregið upp ósanngjarna mynd af kjöti risaframleiðandans.

Dagblaðið Sioux City Journal greindi frá því að þegar valið var í kviðdóm í síðustu viku hafi fjölmargir einstaklingar verið útilokaðir vegna þess að þeir höfðu gagnrýnt kjötið, BPI eða stofnendur fyrirtækisins. Höfuðstöðvar þess eru 32 kílómetra frá Elk Point.

BPI hefur farið fram á 1,9 milljarða Bandaríkjadala í skaðabætur, sem gætu þrefaldast upp í 5,7 milljarða Bandaríkjadala. Hvað sem gerist, þá munu íbúar Elk Point sjálfsagt aldrei upplifa neitt þessu líkt.