Í ljósi dræmrar jólasölu í Bretlandi gera Samtök breskra smásala (British Retail Consortium) ráð fyrir að búðareigendur muni bjóða vörur sínar með umtalsverðum afslætti á janúarútsölunum og á fyrsta hluta árs. „Þeir smásalar sem reyndu að salan í jólamánuðinum stóð ekki undir væntingum verða áfjáðir í að draga úr tapinu og losna við þær árstíðarbundnu vörur sem þeir sitja nú uppi með,” segir Kevin Hawkins, framkvæmdastjóri samtakanna. Hann spáir því að ríkuleg afsláttarkjör gildi langt fram á komandi ár og að búðareigendur muni seilast langt til að freista kaupenda, sem hafa orðið nískir á fé samfara ótíðindum af fjármálamarkaði og ugg um framtíðarhorfur.

Almennt hefjast útsölur í breskum verslunum á þessum árstíma annað hvort annan í jólum eða 27. desember og má gera ráð fyrir að ótal neytendur geti gert reyfarakaup á næstu dögum og vikum. Raunar hófust útsölur þegar fyrir jól hjá helstu verslunum í Bretlandi en talsmenn verslana voru tregir til að viðurkenna að um annað en afslættarkjör á völdum vörum væri að ræða. Sumir söluaðilar, svo sem John Lewis og Next, reka hins vegar þá ófrávíkjanlegu stefnu að vöruverð lækki ekki degi fyrr en 27. desember. Voru dyr Next-verslana í miðborg Lundúna opnaðar eldsnemma, eða klukkan 5 í gærmorgun, og höfðu þá myndast langar raðir fólks sem gerði sér vonir um kostakaup. Fyrir utan Selfridge & Co. á Oxford Street biðu um 900 manns þegar verslunin opnaði og höfðu sumir beðið frá því um 4 um nóttina. Yfir 10 þúsund gestir streymdu inn fyrir dyr verslunarmiðstöðvarinnar Brent Cross í útjaðri Lundúna, sem er ein sú stærsta í Bretlandi, fyrsta klukkutímann eftir að hún opnaði í gærmorgun og var búist við að fyrir lokun næmi tala gesta um eitt hundrað þúsund manns. Nema afslættir í breskum búðum allt að sjötíu prósentum.