Með yfirtökunni á Wenger stígur Marel sín fyrstu skref inn á 160 milljarða evra markaði. Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Marel, segir að yfirtakan marki tímamót og sé mjög stefnumótandi. Á meðal þekktustu viðskiptavina Wenger er fyrirtækið Beyond Meat, sem og fjölskyldufyrirtækið Mars, sem á meðal annars vörumerkin Pedigree, Royal Canin og Whiskas.

Undanfarin ár hefur Marel fyrst og síðast einbeitt sér að framleiðslu hátæknibúnaðar fyrir ört stækkandi alifugla-, kjöt- og fiskiðnað. Yfirtökur félagsins, sem urðu fyrirferðameiri á árunum 2006 til 2008 þegar félagið keypti Scanvaegt og Stork Food Systems, hafa verið á þessum þremur mörkuðum.

Fyrir um tveimur vikum tilkynnti félagið um 540 milljóna dollara eða um 70 milljarða króna yfirtöku á bandaríska fyrirtækinu Wenger Manufacturing LLC. Sú yfirtaka er merkileg fyrir þær sakir að Wenger framleiðir tæki og lausnir sem nýttar eru í matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Í raun má því segja að í yfirtökunni felist ákveðin stefnubreyting, því með henni er Marel að renna fjórðu stoðinni undir viðskiptamódelið.

Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga hjá Marel, segir að yfirtakan á Wenger marki tímamót og sé mjög stefnumótandi.

„Við erum að taka fyrsta stóra skrefið inn á nýjan endamarkað síðan við tókum yfir Scanvaegt og Stork," segir Árni. „Við erum að búa til fjórðu stoðina, til viðbótar við kjöt, kjúkling og fisk og styrkja þannig reksturinn."

Rótgróið fjölskyldufyrirtæki

Árni segir að Marel hafi verið að skoða gæludýrafóður- og plöntupróteinmarkaðinn í nokkurn tíma. Í fyrra hafi Marel sem dæmi selt fyrir tíu milljónir evra til fyrirtækja sem framleiða gæludýrafóður. Þá hafi félagið einnig sett á laggirnar sérstaka deild innan viðskiptaþróunar í þeim tilgangi að kortleggja þessa tvo markaði. Hann segir að fiskfóðurmarkaðurinn sé einnig áhugaverður en ólíkt gæludýrafóður- og plöntupróteinmarkaðnum, séu ekki jafnmörg tækifæri að selja lausnir frá Marel inn á þann markað.

„Við höfðum átt í viðskiptasambandi við Wenger í nokkur ár enda fer vöruframboð fyrirtækjanna vel saman. Þetta skref sem við tókum núna átti sér því aðdraganda. Stór hluti af rekstri Wenger, eða um það bil tveir þriðju, er sala á tækni sem notuð er til framleiðslu á gæludýrafóðri. Sá markaður er risavaxinn en svo sjáum við líka mikil tækifæri í vaxandi plöntupróteinmarkaði til lengri tíma litið."

Wenger er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 1935. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í  Sabetha í Kansas og starfsstöðvar í Valinhos í Brasilíu og Kolding í Danmörku. Alls starfa um 500 manns hjá Wenger og er áætlað að árstekjur félagsins á yfirstandandi ári muni nema 190 milljónum dollara, EBITDA er áætlað 32-35 milljónir dollara og EBIT-framlegð 14-15%.

„Aðalmarkaðssvæði fyrirtækisins er Norður-Ameríka þar sem Wenger aflar ríflega helming sinna tekna en það eru líka töluverð tækifæri í Evrópu fyrir vörur félagsins," segir Árni. „Einn stærsti viðskiptavinur Wenger er Mars-fjölskyldan. Íslendingar þekkja súkkulaði stykkið, en Mars er risafyrirtæki sem á meðal annars vörumerkin Pedigree, Royal Canin og Whiskas. Einnig er Beyond Meat stór kúnni í plöntupróteinlínunni.

Við lítum til þess að ýmislegt í vöruframboði okkar geti nýst viðskiptavinum Wenger. Við sjáum tækifæri í að nýta þjónustunetið, sem við höfum verið að byggja upp ásamt stafrænu innviðunum, en það er mjög klassískt í okkar yfirtökum. Þó við séum að fara inn á nýja endamarkaði þá er yfirtakan mjög svipuð öðrum yfirtökum að þessu leyti."

Góðu og slæmu fyrirtækin

Árni segir að það sé ekki bara vöruframboðið sem passi vel við Marel heldur sé Wenger gott fyrirtæki.

„Ég var mjög hrifinn af félaginu þegar ég var búinn að kynna mér það. Eitt af leiðarljósum mínum í yfirtökum er að við hjá Marel áttum okkur á því að góð fyrirtæki eru yfirleitt betri en þú heldur og slæm fyrirtæki eru oftast verri en þú heldur. Þetta er fjölskyldufyrirtæki, sem var stofnað árið 1935. Slík fyrirtæki hugsa yfirleitt mjög vel um starfsfólkið, fjárfesta mikið í rekstrinum og hafa gjarnan verið frumkvöðlar á sínum markaði.

Við fjárfestum miklum tíma í að kynnast fyrirtækjunum sem við viljum kaupa og í tilfelli Wenger þá virðist fyrirtækjamenningin vera mjög svipuð og hjá Marel sem og hvernig hugsað er um kúnnann, vöruþróun, gæði lausna og framþróun starfsfólks. Ef allt þetta er í lagi þá eru yfirgnæfandi líkur á að vel gangi eftir að yfirtökunni líkur.

Hluthafarnir í Wenger voru um 70 talsins, allt ættingjar stofnendanna Joe and Lou Wenger. Hluthafarnir lögðu mikla áherslu á að fyrirtækið sem myndi kaupa væri af svipuðu meiði og Wenger; héldi áfram að þeirri uppbyggingu sem hefði átt sér stað síðustu tæp 90 árin og hugsaði vel um starfsfólkið."

Mörg af þeim fyrirtækjum sem Marel hefur yfirtekið hafa einmitt verið fjölskyldufyrirtæki.

„Það er alveg rétt," segir Árni. „Það eru að mörgu leyti flóknari yfirtökur en á sama tíma betri. Er það vegna þess sem ég hef þegar lýst, það er að segja að þessi fyrirtæki búa oftar en ekki yfir miklum gæðum. Þetta helgast líka af því að þeir markaðir sem við erum starfandi á eru mjög skiptir. Það eru mörg fyrirtæki starfandi á þeim og ófá þeirra voru stofnuð af fjölskyldum í kringum seinni heimstyrjöld. Núna hafa orðið ákveðin kynslóðaskipti hjá sumum þessara fyrirtækja og við höfum nýtt okkur það í þeim tilgangi að samþætta. Við höfum líka keypt fyrirtæki af fjárfestingasjóðum og það er allt öðruvísi ferli að því leyti að þar skiptir verðmiðinn öllu máli en traust og sambönd minna máli."

Tólfta yfirtakan

Yfirtakan á Wenger er sú tólfta sem Árni hefur haft umsjón með síðan hann hóf störf hjá félaginu árið 2014. Í raun má segja að þær séu orðnar þrettán því hann tók einnig þátt í yfirtökunni á Stork árið 2008 en þá sem starfsmaður í Landsbankanum. Á meðal yfirtaka sem Marel hefur farið í síðustu ár er MPS árið 2016, Sulmaq árið 2017, Maja árið 2016, Curio og Cedar Creek árið 2019 en það ár eignaðist Marel einnig 25% hlut í Worximity, Treif árið 2020, PMJ og Valka árið 2021 en í fyrra eignaðist félagið einnig 40% hlut í Stranda Prolog og svo Wenger og Sleegers Technique árið 2022.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .