Á annan tug íslenskra fyrirtækja vinnur nú að hönnun og smíði á tækjum og búnaði í tvo erlenda frystitogara. Stærsta verkefnið er unnið í Slippnum á Akureyri, en það er fiskvinnslulína og búnaður vinnsludekks og má áætla kostnað yfir 650 milljónir króna. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að verkefnið skapar mikla vinnu í haust og vetur og er eitt mannaflfrekasta einstaka verkefnið sem Slippurinn hefur tekið að sér.

Fiskvinnsluvélarnar, flökunarvélar og hausarar eru algerlega íslensk framleiðsla frá Vélfagi á Ólafsfirði. Vogir og flokkarar eru framleiddir af Marel. Skipin eru annars vegar smíðuð fyrir UK Fisheries á Bretlandi, sem er að hluta í eigu Samherja, og hins vegar fyrir þýskt samstarfsfyrirtæki Samherja.