Risaverkefni (á ensku megaprojects ) eru framkvæmdaverkefni sem einkennast af umfangsmiklum fjárfestingum, háu flækjustigi í skipulagi og langvarandi áhrifum á hagkerfi, umhverfi og samfélag. Verktakar, skipuleggjendur og fjárfestar slíkra þrekvirkja fara ótroðnar slóðir og standa oftar en ekki frammi fyrir gríðarlegri áhættu, óumflýjanlegri gagnrýni og kostnaði langt fram yfir áætlanir. Oft er þess vegna þunn lína sem aðskilur stórhug og ofmetnað. Hér eru fimm stærstu, dirfskufyllstu og dýrustu verkefnin sem nú eru á döfinni.

#1 Alþjóðlega geimstöðin

Alþjóðlega geimstöðin
Alþjóðlega geimstöðin
© epa (epa)

Dýrasta fyrirbæri mannkynssögunnar svífur í um 350 km hæð yfir jörðu með sex manns um borð. Alþjóðlega geimstöðin er samstarfsverkefni fimm geimferðastofnana og er hlutverk hennar að rannsaka hvernig efni og lífverur haga sér í þyngdarleysi. Fullkláruð mun hún vega 450 tonn og vera álíka stór og Laugardalsvöllurinn. Fyrsta hluta hennar var skotið á loft árið 1998. Líftími geimstöðvarinnar rennur út árið 2020.

Áætlaður kostnaður (2010): 150 milljarðar Bandaríkjadala (~18,4 þúsund milljarðar kr.), eða tæplega 150 sinnum áætlaður byggingarkostnaður Taj Mahal.

#2 Al Maktoum alþjóðaflugvöllurinn

Al Maktoum alþjóðaflugvöllurinn
Al Maktoum alþjóðaflugvöllurinn
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Al Maktoum alþjóðaflugvöllurinn í Jebel Ali í Sameinuðu arabísku furstadæmunum var opnaður árið 2010 en útvíkkun hans lýkur árið 2018. Fullkláraður verður flugvöllurinn sá stærsti í heiminum að stærð og hámarksfjölda farþega. Hann mun geta komið til móts við 200 breiðþotur, tekið á móti fjórum þotum í einu og höndlað 160 milljónir farþega á ári hverju.

Áætlaður kostnaður (2012): 82 milljarðar Bandaríkjadala (~9,5 þúsund milljarðar kr.), eða 4,3-sinnum landsframleiðsla Íslands árið 2015.

#3 Suður-til-Norður vatnsflutningaverkefnið

Suður-til-Norður vatnsflutningarverkefnið
Suður-til-Norður vatnsflutningarverkefnið
© epa (epa)

Árið 2002 hófust Kínverjar handa við það verkefni að veita vatni úr stórfljótunum í Suður-Kína til hinna þurru iðnaðarsvæða í Norður-Kína, þar sem um helmingur þjóðarinnar býr. Þrjár vatnsrásir verða grafnar, hver yfir 966 km löng, og eiga þær að tengja iðnaðarborgir norðursins við Jangtse-fljótið. Þegar verkinu lýkur árið 2050 verður um 45 milljörðum rúmmetrum af vatni veitt til norðurhluta Kína.

Áætlaður kostnaður (2014): 79 milljarðar Bandaríkjadala (~8,9 þúsund milljarðar kr.), eða nærri því þrisvar sinnum kostnaðurinn við Þriggja gljúfra stífluna.

#4 Kaliforníu hraðlestin

California High-Speed Rail
California High-Speed Rail
© epa (epa)

Rafknúna hraðlestin í Kaliforníu mun ná frá San Francisco og Sacramento til Los Angeles og San Diego á austurströnd Bandaríkjanna. Stærð kerfisins í heildina verður um 1.300 km með 24 stöðvum. Hægt verður að ferðast milli endastöðvanna innan þriggja klukkutíma á hraðanum 320 km á klukkustund. Hafist var handa við verkefnið árið 2015 og er gert ráð fyrir að það taki fimmtán ár.

Áætlaður kostnaður (2012): 68,4 milljarðar Bandaríkjadala (~7,9 þúsund milljarðar kr.), eða meira en þrisvar sinnum kostnaður Trans-Síberíu brautarinnar.

#5 Dubailand

Dubailand
Dubailand
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Í Dubai er verið að reisa skemmtigarðinn Dubailand. Hann mun innihalda minni skemmtigarða, íþróttamannvirki, svæði fyrir umhverfisferðamennsku, vísindastöðvar, heimsins stærstu verslunarmiðstöð og hótel, þ.á m. stærsta hótel heims með 6.500 herbergi. Framkvæmdir hófust árið 2003 og verða framkvæmdaverkefnin 245 talsins. Skemmtigarðurinn mun þekja 278 ferkílómetra þegar framkvæmdum er lokið fyrir 2025 og verður hann tvöfalt stærri heldur en Walt Disney World Resort í Flórída.

Áætlaður kostnaður (2007): 64 milljarðar Bandaríkjadala (~8,2 þúsund milljarðar kr.), eða um 390 Hörpur.