Bandaríski lyfjaframleiðandinn Bristol-Myers Squibb leitar nú að hugsanlegum kaupanda að Mead Johnson, sem þekktast er fyrir barnamat sinn, svo sem mjólkurduft og mauk, og margt annað sem snertir ungviðið.

Er Mead Johnson metið á um 7-9 milljarða dollara, eða sem nemur 525-675 milljörðum króna, að því er fram kemur hjá Financial Times.

Þá er Bristol-Myers sagt m.a. hafa leitað til matvælaframleiðenda á borð við PepsiCo, Nestle, Kraft, Heinz og Danone til að kanna áhuga þeirra á kaupum, en einnig verið í sambandi við lyfjaframleiðendur sem hafa einhverja reynslu af matvælaframleiðslu.

„Óformlegar þreifingar hafa átt sér stað en formlegt söluferli er ekki byrjað,” sagði einn heimildarmaður blaðsins. Talsmaður Bristol-Myers neitaði að tjá sig um málið.

Í fyrra keypti Nestle barnamatsframleiðandann Gerber fyrir 5,5 milljarða dollara.