Emerald Networks, sem ráðgerir að leggja nýjan gagnaflutningsstreng milli Bandaríkjanna og Evrópu með tengingu við Ísland, hefur samið við CenturyLink, þriðja stærsta fjarskiptafyrirtæki Bandaríkjanna, um afnot af strengnum. Stefnt er að því að strengurinn, Emerald Express, verði tekinn í notkun síðla árs 2014  en hann nýtir nýjustu tækni í flutningsgetu og býður upp á enn meiri aukningu á afköstum síðar.

Fram kemur í tilkynningu að Emerald Express er til þess fallinn að auka öryggi fjarskiptasambanda Íslands við umheiminn og mæta eðlilegri endurnýjunarþörf núverandi sæstrengja. Með strengnum fæst bein tenging til Bandaríkjanna og þar með beinn aðgangur að nýjum markaðssvæðum með tilheyrandi tækifærum.  Strengurinn er einnig kærkomin stoð fyrir gagnaver, en Ísland hefur lent aftarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að öflugum nettengingum.

Samið hefur verið við bandaríska fyrirtækið TE SubCom um lagningu strengsins, sem áætlað er að komi í land við Grindavík. Félagið hefur viðamikla reynslu af lagningu neðansjávarkapla.

Íslenska fjárfestingafélagið Thule Investments sér um fjármögnun strengsins á Íslandi