Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir og forstjóri Norðuráls, Ragnar Guðmundsson munu í dag undirrita fjárfestingarsamning vegna álvers í Helguvík.

Undirskriftin er í raun bara formleg því Alþingi samþykkti í apríl síðastliðnum að veita iðnaðarráðherra heimild til þess að gera fjárfestingarsamning við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík ehf. um álver í Helguvík.

Heimildin nær til þess að reist verði og rekið álver sem framleiði allt að 360 þúsund tonn af áli.

Frumvarpið um fjárfestingarsamninginn var samþykkt með 38 atkvæðum gegn níu. Lögin í heild má finna hér.