Michelle Roosevelt Edwards, eigandi vörumerkis Wow Air, virðist vera tengd kenningu sem hljóðar upp að kosningasvindl hafi átt sér stað í bandarísku forsetakostningunum á síðasta ári. Í það minnsta barst þáverandi forseta bréf frá fyrirtæki í hennar eigu þar sem því er haldið fram.

Nýverið sendi bandarísk þingnefnd, sem hefur eftirlit með framkvæmdavaldinu, frá sér skjöl um umrædda kenningu. Samkvæmt henni þá átti ítalskt félag, Leonardo SpA, að hafa krukkað í rafrænu kjörkössunum þar ytra þannig að atkvæði greidd Donald Trump yrðu að atkvæðum handa Joe Biden. Skjölin sem þingnefndin sendi frá sér sýna hvernig starfsfólk forsetans lagði mikið kapp á að reyna færa sönnur á að einhver fótur væri fyrir kenningunum.

Meðal skjalanna er bréf til forsetans frá USAerospace Partners. Það nafn er Íslendingum nokkuð kunnugt en félagið er í eigu fyrrnefndrar Roosevelt Edwards, sem áður var þekkt undir nafninu Ballarin. Nafn hennar er að vísu hvergi að finna á bréfunum en um er að ræða bréfsefni félaga hennar.

Í bréfinu kemur fram að höfundur bréfsins hafi fengið staðfest að Leonardo SpA hafi notað „háþróaða hernaðardulkóðun“ til að eiga við kjörgögn. Gjörningurinn hafi verið unninn í samvinnu við þrjá háttsetta menn innan bandarísku leyniþjónustunnar sem störfuðu í bandaríska sendiráðinu í Róm. Þá er einnig fullyrt að starfsmaður ítalska félagsins sé tilbúinn að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi þar sem fram kemur hvernig gervihnettir, sem vanalega væru nýttir í hernaðartilgangi, hefðu verið notaðir til verksins. Bréfið er að finna í skjölunum bæði á ensku og ítölsku.

Í skjölunum er einnig að finna fréttatilkynningu um kosningasvindlið en umrædd tilkynning var á .pdf-skjali. Samkvæmt frétt Washington Post var Roosevelt Edwards höfundur skjalsins.