Kristján Guy Burgess, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, ritaði bréf til stjórnenda Bylgjunnar í gær. Í bréfinu gagnrýnir hann viðmælendahóp Bylgjunnar.

Kristján segir að á Bylgjunni sé mestmegnis rætt við karlmenn sem eru yfir miðjum aldri, og séu talsmenn stjórnarflokkanna á Alþingi.

Þá er Kristján ósáttur við að ekki séu fleiri konur fengnar til að vera viðmælendur í útvarpsþáttunum, auk þess sem halli á ungt fólk og fulltrúa annarra stjórnmálaflokka en þeirra sem sitja í ríkisstjórn.

Til að mynda snertir Kristján á því að hjá Reykjavík síðdegis hafi mest verið rætt við 11 karla og tvær konur - þá séu fjórir þeirra fulltrúar Framsóknar, þrír Sjálfstæðisflokks, og svo einn úr flokkum Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.

Kristján Guy skorar á útvarpsmennina að tala við fleiri konur, fleira ungt fólk, og fleiri fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem ekki sitja í ríkisstjórn.