*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 17. mars 2021 11:53

Ritdeilur vegna skattalagabreytinga

Skattrannsóknarstjóri, saksóknarar og lögmenn hafa tekist hart á í umsögnum um frumvarp um rannsókn skattalagabrota.

Jóhann Óli Eiðsson
Ólafur Þór Hauksson telur að niðurfelling mála sem til meðferðar eru kynni að hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.
Haraldur Guðjónsson

Til hálfgerðrar ritdeilu milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins (FJR), héraðssaksóknara, skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) auk lögmannsstofunnar Logos og ráðgjafarfyrirtækjanna KPMG og PwC í umsagnarkerfi þingsins. Þrætueplið er frumvarp um breytingu á fyrirkomulagi rann- og saksóknar í skattalagabrotum og sitt sýnist hverjum.

Frumvarpið felur í sér viðbragð við dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum gegn Íslandi í þessum flokki. Þar hefur ítrekað verið komist að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið eins og það hefur verið, það er að ákvarða gjaldendum sekt á stjórnsýslustigi og höfða síðar sakamál gegn því, geti falið í sér brot gegn banni um tvöfaldri málsmeðferð eða tvöfaldri refsingu fyrir sama brot. Sé málsmeðferð aftur á móti samþætt bæði í tíma og efni getur meðferðin gengið upp.

Viðskiptablaðið fjallaði um stöðuna í málaflokknum í úttekt undir lok árs 2019. Þar kom fram að mikillar þreytu gætti meðal þeirra sem koma að málaflokknum enda er frávísunar krafist í nánast öllum sakamálum. Þá hefur sjö dómara dómi Hæstaréttar, sem ætlað var að leggja línurnar í kjölfar dóma MDE, verið vísað til Strassbourgar og er niðurstöðu beðið þar ytra.

Á vormánuðum 2019 var skipuð nefnd sem ætlað var að koma með tillögur að úrbótum. Hún samanstóð meðal annars af ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, vararíkissaksóknara og saksóknara hjá héraðssaksóknara. Frumvarpið nú byggir á vinnu nefndarinnar. Samkvæmt frumvarpinu verður embætti SRS lagt niður og sameinað Skattinum. Smærri málum, sem varða minna en 50 milljóna króna brot, verður lokið á stjórnsýslustigi en stærri verði send til lögreglu.

Mælt var fyrir frumvarpinu undir lok síðasta árs og það síðan sent til meðferðar efnahags- og viðskiptanefndar. Þá hófst gleðin, fyrst með umsögn KMPG þar sem meðal annars var lagt til að mál sem væru nú til meðferðar, samkvæmt hinu eldra kerfi, yrðu felld niður. Sanngirnissjónarmið hlytu að hníga til þess. Tekið var undir það sjónarmið af hálfu Logos og PwC.

Ráðuneytið hissa á skattrannsóknarstjóra

Um svipað leyti barst umsögn frá SRS en áður hefur verið sagt frá efni hennar á síðum Viðskiptablaðsins. Kom þar meðal annars fram að embættið teldi að boðað fyrirkomulag gæti þýtt að innheimta sekta myndi versna og að ekki yrði séð að þörf væri á því að lögregla myndi rannsaka sakamál á þessu sviði. Víða í lögum væri gert ráð fyrir því að önnur stjórnvöld hefðu á hendi rannsókn sakamála.

„[Umsögn SRS] kemur ráðuneytinu á óvart þar sem vinnuhópurinn fundaði við vinnslu frumvarpsins með öllum hagsmunaaðilum, [þar á meðal SRS], átti víðtækt samráð með embættunum og veitti þeim kost á að koma að athugasemdum við frumvarpsdrögin á ýmsum stigum,“ segir í upplýsingaskjali FJR þar sem efni umsagna er tekið saman. Segir þar meðal annars að ekki sé raunhæft að færa SRS ákæruvald í málum þessum.

Í skjali FJR er einnig tekin afstaða til athugasemda Logos, Pwc og KPMG. Segir þar að ráðuneytið geri ekki athugasemd við að staða sakborninga, sem þegar hafa sætt álagningu og eru nú til rannsóknar, verði tekin til skoðunar af héraðssaksóknara eftir gildistöku breytinganna. Aftur á móti brjóti það gegn meginreglunni um þrígreiningu ríkisvalds að fella niður mál sem komin eru til kasta dómstóla. Nauðsynlegt sé að treysta dómstólum til að leiða þau mál farsællega til lykta.

Lögmenn furða sig á umsögn héraðssaksóknara

Eftir samantekt FJR hafa borist viðbótarumsagnir frá héraðssaksóknara, SRS og sameiginleg umsögn Logos, Pwc og KPMG. Í umsögn þess fyrrnefnda segir að embættið telji ekki rétt „að Alþingi hlutist til um með lagasetningunni að raska grundvelli þeirra mála sem nú eru til meðferðar þar sem hann telur meðferð þeirra ekki ganga í berhöggi við dóma MDE. Auk þess að hafa neikvæð áhrif á fyrirsjáanleika refsimála þá gæti slík breyting einnig vakið upp álitaefni varðandi endurupptöku allra þeirra skattamála sem dómur hefur verið lagður á hér á landi eftir dóm MDE með ófyrirséðum afleiðingum.“

Tilefni viðbótarumsagnar Logos, PwC og KPMG er tilvitnuð orð í umsögn héraðssaksóknara. Er þar vísað til sjö dómara málsins, svokallaðs „Bragamáls“, en frá því að sá dómur var kveðinn upp hefur íslenska ríkið tapað í tvígang úti í Frakklandi, annars vegar í máli Bjarna Ármannssonar og hins vegar í máli Ragnars Þórissonar. Landsréttur hafi haldið áfram að dæma eftir löskuðu fordæmi Hæstaréttar og hafnað því að nýrri dómar MDE geti haft áhrif á þá niðurstöðu sem sjö dómara Hæstiréttur geirnegldi.

„Lausn vandans er því ekki að vænta hjá dómstólum í bráð. Það er ein meginástæðan fyrir því frumvarpi sem nú er um rætt og liggur fyrir þinginu. […] Það skal tekið fram að í nefndinni sátu saksóknarar frá embættum ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Þá hafa bæði embættin veitt frumvarpinu sjálfu mjög jákvæða umsögn. En þegar kemur að því að beita sömu sjónarmiðum um þau mál sem eru til staðar í kerfinu þá finnst héraðssaksóknara rétt að líta framhjá þessum sjónarmiðum og þá eru eldri dómafordæmi allt í einu fullnægjandi leiðarljós í málaflokknum. Þetta virðist ekki mjög rökrétt,“ segir í umsögninni.

Bjóði hættunni heim

Í viðbótarumsögn SRS er síðan sagt að frumvarpið, eins og það liggur fyrir nú, bjóði hættunni heim. Það er að héraðssaksóknara verði falið að rannsaka mál en SRS einnig. Tvær einingar, með sérhæfðum rannsakendum, hjá tveimur mismunandi ríkisstofnunum muni því fara með málaflokkinn. Slíkt skapi bæði óhagræði og fyrirséð sé að einhver mál sæti tvöfaldri rannsókn.

Einnig séu vafamál uppi um það hvort aðilar, á borð við erlend skattayfirvöld, verði fús til þess að veita héraðssaksóknara þær upplýsingar og aðgang að kerfum sem SRS hefur nú. Tillagan feli í sér að koma þyrfti upp eldveggi innan embættis héraðssaksóknara þannig að skattrannsóknarupplýsingar fari ekki á flakk um allt hús. Sterk rök hnígi því til þess að rannsókn skattalagabrota verði áfram á hendi sérstaks rannsóknaraðila innan skattkerfisins.