Hallgrími Thorsteinsyni hefur verið sagt upp sem ritstjóra DV. Þá hefur nokkrum blaðamönnum einnig verið sagt upp störfum í dag, að því er fram kemur í Kjarnanum.

Uppsagnirnar eru hluti af skipulagsbreytingum sem ráðist var í vegna samruna DV og Pressunnar, en Pressan ehf. sem er í meirihlutaeigu Björns Inga Hrafnssonar keypti á dögunum um 70% hlut í DV ehf. Í dag hafa borist fréttir af því að Sigurður G. Guðjónsson og Jón Óttar Ragnarsson hafi fjárfest í Pressunni.

Hallgrímur Thorsteinsson var ráðinn ritstjóri DV í byrjun september og tók þá við af Reyni Traustasyni eftir hörð átök um eignarhald á félaginu. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru María Lilja Þrastardóttir og Sveinbjörn Þórðarson meðal þeirra sem var sagt upp í dag.

Samkvæmt heimildum RÚV mun Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, taka við sem annar ritstjóri blaðsins á mánudag. Ekki er ljóst hver hinn ritstjórinn verður.