Ýmsum aðferðum má beita til að hola ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla að innan. Það má gera með því gera sífelldar athugasemdir við fréttaflutning sem tengist eigendunum og vona að það síist inn hjá stjórnendum ritstjórnarinnar að það sé betra að sleppa slíkri umfjöllun en að styggja eigendurna. Þetta skrifar Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, í leiðara blaðsins í dag.

Eins og fram kom í gær var Mikael Torfasyni , aðalritstjóra 365 miðla, sem m.a. gefur út Fréttablaðið, sagt upp störfum. Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi fjölmiðla 365 miðla, hefur tímabundið tekið við starfi hans. Þá var Sigurjón M. Egilsson ráðinn sem fréttaritstjóri. Sævar Freyr Þráinsson , forstjóri 365, sagði í samtali við VB.is í gær breytingarnar til þess fallnar að einfalda skipulag fréttastofunnar og lækka kostnað við yfirbyggingu hennar. Á sama tíma sé unnið að því að auka sjálfstæði fréttastofu 365 miðla og auka hlut kvenna í fréttaskrifum. Þá kom fram í gær að Ólafi hafi verið boðið starf áfram. Kjarninn sagði Ólaf hafa ætlað að segja upp í kjölfar breytinganna en ekki hafi verið tekið við uppsögn hans.

Ekki hægt að láta neikvæðar fréttir vera

Í leiðaranum fjallar Ólafur ítarlega um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og telur m.a. fram að fjölmiðill sem láti vera að birta neikvæðar fréttir um fyrirtæki sem á sama tíma eru þeirra stærsta tekjulind í krafti auglýsingaviðskipta sé fljótur að glata tiltrú almennings.

Ólafur skrifar:

„... viðleitni löggjafans til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla er góðra gjalda verð, enda skiptir það miklu máli í lýðræðislegu þjóðfélagi. Hins vegar er það svo að slíkur lagabókstafur og siðareglur fjölmiðla skipta litlu sem engu máli ef vilji eigenda stendur ekki til þess í raun að starfrækja sjálfstæða miðla, þar sem ritstjórnin lýtur ekki eigendavaldi.“

Ólafur nefnir jafnframt aðra aðferð. Hún er sú að gera ekki beinar athugasemdir við umfjöllun fjölmiðils sem snýr að eigendunum, heldur skrúfa upp þrýstinginn vegna annarra mála sem snúa að ritstjórninni þannig að stjórnendurnir skilji samhengið. Það geti þurft sterk bein til að þola slíkan þrýsting. Sú þriðja getur svo verið að ráða til stjórnunarstarfa á ritstjórnum fólk sem er nægilega náið og handgengið eigendunum til að láta prinsipp um ritstjórnarlegt sjálfstæði ekki þvælast fyrir sér.