Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, fer fyrir hópi fjárfesta sem hefur keypt rekstur Viðskiptablaðsins, Fiskifrétta og netmiðlanna vb.is og skip.is.

Fljótlega verður skýrt nánar frá því hvernig þessi hópur fjárfesta er saman settur.

Viðskiptablaðinu var á dögunum breytt á ný í vikurit og hyggst Haraldur halda áfram útgáfu vikublaðs um viðskipti, efnahag og stjórnmál undir merki Viðskiptablaðsins, auk þess að halda úti öflugum fréttavef, vb.is.

Fiskifréttir, sem er sérblað um sjávarútveg, verður áfram sjálfstætt fylgirit með Viðskiptablaðinu.

Viðskiptablaðið var áður í aðaleigu Frásagnar ehf., dótturfélags Exista hf. Með þessum kaupum hefur áframhaldandi útgáfa Viðskiptablaðsins verið tryggð, en blaðið hóf göngu sína sem vikurit árið 1994.