Bjarni Ólafsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefur verið sýknaður í meiðyrðamáli sem Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, höfðaði gegn honum síðastliðið haust. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Róbert stefndi ritstjóranum vegna setningar á forsíðu blaðsins þann 28. ágúst síðastliðinn. Í fréttinni var greint frá því að Björgólfur Thor Björgólfsson hefði stefnt Róberti og kært til sérstaks saksóknara.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars:

„Að mati dómsins var vinnsla umræddrar fréttar og framsetning hennar í blaðinu eðlileg þar sem sjónarmið stefnanda komu skýrlega fram, m.a. á forsíðu. Þá var umfjöllunin ekki hlutdræg eða í henni að finna sjálfstæða umfjöllun blaðamannsins er vann fréttina.“