Ragnar Jónasson var í liðinni viku ráðinn yfirlögfræðingur fjármálafyrirtækisins Gamma. Auk þess að vinna að lagalegum málefnum mun hann sinna verkefnum á sviði sérhæfðra fjárfestinga.

„Starfið sem mér bauðst hjá Gamma var mjög spennandi og ég hafði starfað hjá Kaupþingi í alls fjórtán ár, upphaflega í fyrirtækjaráðgjöf og á lögfræðisviði, og svo hjá slitastjórn Kaupþings. Mér fannst því kominn tími til að færa mig um set og takast á við nýjar áskoranir,“ segir Ragnar.

Ný spennusaga í öðrum dúr

Þótt ekki sé efast um hæfni Ragnars á sviði lögfræðinnar þekkja landsmenn hann þó líklega öllu betur af ritstörfum. Hann hefur nú gefið út sex spennusögur á jafnmörgum árum og er hægt að fullyrða að höfundurinn njóti meiri hylli með hverri bókinni sem hann gefur frá sér.

Bækur Ragnars, sem fjalla um lögreglumanninn Ara Þór og gerast á Siglufirði, hafa fengið góða dóma gagnrýnenda og sumar bókanna verið gefnar út á erlendum tungumálum. Nú er Ragnar með nýtt verk í smíðum sem verður hins vegar með öðru sniði.

„Í fyrra sendi ég frá mér síðustu bókina í syrpu sem gerist á Siglufirði og þar í kring. Þessa dagana, þegar tími vinnst til, er ég að fást við að skrifa fyrstu kaflana í spennusögu í dálítið öðrum dúr, sögu sem tengist Siglufirði ekki neitt, en það verður svo bara að koma í ljós hvernig hún þróast.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .