Bandarísk yfirvöld lokuðu í dag Silverton Bank í Atlanta. Með falli bankans hafa 30 bankar fallið í Bandaríkjunum á þessu ári og að sögn WSJ er talið að fall hans geti skekið hundruð annarra illa staddra banka í suðausturhluta Bandaríkjanna.

Innlánatryggingasjóður Bandaríkjanna, FDIC, telur að kostnaður sjóðsins af falli Silverton verði 1,3 milljarðar dala. Eignir bankans nema 4,1 milljarði dala og er hann fimmti stærsti bankinn sem fellur í Bandaríkjunum eftir að fjármálakreppan gerði vart við sig fyrir alvöru í fyrra.

Í frétt WSJ segir að fall bankans geti haft alvarlegar afleiðingar. Hann hafi veitt einum af hverjum fimm bönkum í Bandaríkjunum þjónustu og að viðskiptavinir hans, innlánseigendur og fjárfestar séu allir bankar. Bankinn tók ekki við innlánum frá almenningi og veitti ekki neytendalán.