Hlutabréf í rafbílaframleiðandanum Rivian hafa fallið um 28% síðustu tvo viðskiptadaga, eða frá lokun markaða á þriðjudag. Í upphafi vikunnar var félagið orðið næstverðmætasti rafbílaframleiðandi heims með yfir 150 milljarða dala heildarmarkaðsvirði þrátt fyrir að hafa ekki selt einn einasta bíl.

Félagið var skráð á markað í síðustu viku á genginu 78 dalir á hlut, en strax í lok fyrsta viðskiptadags á miðvikudeginum höfðu bréfin brotið þriggja stafa múrinn.

Bréfin náðu hápunkti við lokun markaða síðasta þriðjudag í 172 dölum, eða 120% hækkun frá útboðsgenginu á innan við viku.

Meðal hluthafa hins nýja rafbílaframleiðanda eru hið gamalgróna Ford og tæknirisinn Amazon með 12 og 20% hlut í sömu röð. Amazon hefur þegar pantað 100 þúsund sendibíla frá Rivian sem lið í umhverfisáætlun sinni.

Samkeppnin er hinsvegar afar hörð í rafbílaheiminum um þessar mundir, enda flestallir stórir framleiðendur komnir með rafbíl á síðustu árum, á meðan bréf í þekktasta hreina rafbílaframleiðanda heims, Tesla, hafa yfir 16-faldast í verði síðustu tvö ár, og er félagið nú verðmætara en allir helstu samkeppnisaðilar sínir samanlagt.