Fyrir rúmri viku síðan hélt rafbílaframleiðandinn Rivian stærsta frumútboð á bandaríska hlutabréfamarkaðnum frá því að Facebook var skráð á markað árið 2012. Hlutabréfverð Rivian hefur meira en tvöfaldast frá útboðinu og er nú orðinn þriðji verðmætasti bílaframleiðandi heims, þó fyrirtækið sé enn tekjulaust.

Markaðsvirði Rivian stendur nú í 146,7 milljörðum dala og er orðið verðmætara en þýski bílarisinn Volkswagen. Einungis Tesla og Toyota eru með hærra markaðsvirði en Rivian.

Í útboðslýsingunni kom fram að fyrirtækið hafi afhent fyrstu pallbílana sína fyrir tveimur mánuðum síðan og stór meirihluti þeirra fór til starfsmanna fyrirtækisins. Hluti af ástæðunni fyrir spennunni á bak við Rivian er stuðningur Amazon en netrisinn fer með 22% hlut í rafbílaframleiðandanum. Amazon hefur einnig lagt inn pöntun fyrir 100 þúsund vörubíla frá Rivian sem verða afhentir fyrir árslok 2025.

Í umfjöllun CNN um málið segir að fjárfestar óttist margir að missa af fjárfestingartækifæri á borð við Tesla sem hefur tólffaldast að markaðsvirði á tveimur árum. Þá er einnig bent á að undir 1,2 þúsund milljarða dala innviðafjárfestingum Biden ríkisstjórnarinnar verður 7,5 milljörðum dala úthlutað í uppbyggingu á hleðslustöðvaneti í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Stærsta frumútboðið síðan Facebook

Hlutabréfaverð Rivian stendur nú í 172 dölum á hlut en útboðsgengi félagsins var 78 dalir. Alls safnaði rafbílaframleiðandinn 11,9 milljörðum dala í frumútboðinu. Rivian var stofnað fyrir tólf árum síðan.