Í kjölfar samstarfs Iceland Airwaves og norsku tónlistarhátíðinnar og ráðstefnunnar By:Larm munu hljómsveitirnar FM Belfast, Bloodgroup og Benni Hemm Hemm leika á By:Larm 2008 í Osló um næstu helgi, 21.-23. febrúar. Um er að ræða stærstu tónlistarráðstefnu Skandinavíu sem skiptist niður í tvo hluta; By:Larm Conference sem samanstendur af vinnufundum og fyrirlestrum ætluðum starfsmönnum tónlistarbransans og By:Larm Live þar sem boðið verður upp á rúmlega 150 tónleika sem eru opnir öllum hátíðargestum. Samstarf Iceland Airwaves og By:Larm hófst í fyrra er hljómsveitirnar Reykjavík!, Ultra Mega Technobandið Stefán og Lay Low léku á sérstökum Iceland Airwaves viðburðum á By:Larm 2007. Tónleikarnir vöktu mikla athygli og sköpuðu ýmis tækifæri fyrir ofangreinda listamenn. Í framhaldinu komu útsendarar frá By:Larm á Iceland Airwaves síðastliðinn október og hrifust meðal annars af tónleikum Benna Hemm Hemm, FM Belfast og Bloodgroup - sem leika munu á By:Larm hátíðinni í ár. Tónleikar íslensku sveitanna eru að þessu sinni hluti af almennri dagskrá By:Larm. Loftbrú Icelandair og Reykjavíkurborgar og ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar) eru bakharlar verkefnisins og hafa unnið með Iceland Airwaves að því að gera tónleika Benna Hemm Hemm, FM Belfast og Bloodgroup á By:Larm 2008 mögulega. Aðstandendur Iceland Airwaves munu nýta tækifærið og vera með sérstakt kynningarátak á Iceland Airwaves og íslenskri tónlist á By:Larm 2008. Tónlistarhátíðin og ráðstefnan By:Larm dregur árlega til sín hundruðir starfsmanna tónlistarbransans á Norðurlöndunum, Bretlandi og annarstaðar í Evrópu - auk venjulegra tónlistaráhugamanna. Hátíðin hefur farið fram árlega frá árinu 1998, en sá háttur er hafður á að staðsettning hennar breytist ár frá ár þar sem hún flakkar milli stærstu byggðarlaga Noregs. Hátíðin í fyrra fór fram í Tromsö, en í ár er höfuðborgin Osló gestgjafinn. Hljómsveitirnar koma fram með eftirfarandi hætti:

  • FM Belfast Fri 22.02.08 at Blaa, on stage 23.30 Sat 23.02.08 at Villa, on stage 23.30
  • Bloodgroup Fri 22.02.08 at Fabrikken, on stage 22.30 Sat 23.02.08 at Fabrikken, on stage 23.30
  • Benni Hemm Hemm Thu 21.02.08 at DogA, on stage 23.00