Fragtvél á vegum Actavis flaug til Barcelona á Spáni fyrir skömmu með verðmætasta farm sem félagið hefur flutt út í einni sendingu í meira en fimm ár. Vélin flutti töflur af hjartalyfinu Atorvastatin Magnesium, sem framleiddar voru í lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði. Sala í spænskum apótekum hefst væntanlega í dag, en byrjað var að dreifa lyfinu til heildsala fyrr í vikunni segir í tilkynningu félagsins.

Atorvastatin er mest selda lyfið á spænska markaðinum og raunar heiminum öllum.

Í tilkynningu kemur fram að lyfin fóru öll til viðskiptavina Medis, sölusviðs Actavis sem sér um sölu tilbúinna lyfja til annarra lyfjafyrirtækja. Viðskiptavinirnir eru fjögur stærstu samheitalyfjafyrirtæki á Spáni, en lyfið verður einnig selt undir vörumerki Actavis á Spáni innan skamms. Lyfið er fyrsta samheitalyf frumlyfsins (Zarator® / Cardyl®), sem fáanlegt er þar í landi. Með vélinni fóru 20 milljón töflur og skömmu síðar voru 10 milljón töflur til viðbótar fluttar til Spánar í öðrum sendingum.

Þróað hjá Actavis

Atorvastatin Magnesium er þróað hjá Actavis á Íslandi, en þróunarsvið félagsins í Hafnarfirði gegnir lykilhlutverki í þróun nýrra samheitalyfja hjá Actavis Group. Lyfjaverksmiðjan í Hafnarfirði er sérhæfð í að framleiða ný samheitalyf sem þróuð eru hér á landi, en lyfjaverksmiðjur Actavis eru alls 19 í 14 löndum.

Atorvastatin er mjög öflugt lyf sem lækkar kólesteról og önnur fituprótein í blóði.  Það hefur áhrif á ensím sem sér m.a. um að mynda kólesteról. Lyfið er lyfseðilskylt og er framleitt í töflum í þremur styrkleikaflokkum, 10mg, 20mg og 40mg.  Vegna mismunandi einkaleyfastöðu í mismunandi löndum hefur Actavis þróað fleiri en eina samsetningu af hjartalyfinu Atorvastatin. Staða einkaleyfa er flókin. Þannig gildir t.d. einkaleyfi á Atorvastatin Calcium á Spáni til 2010, en ekki á Atorvastatin Magnesíum og því gat Medis selt lyfið til Spánar með leyfi spænskra yfirvalda.

Ekki einkaleyfisvarið á Íslandi

Einkaleyfisvernd lyfjafyrirtækisins Pfizer á frumlyfinu sem inniheldur Atorvastatin Calcium rennur út víðast hvar annarsstaðar í Evrópu árið 2011, en ekki var sótt um einkaleyfi á Íslandi og því gat Actavis markaðssett lyfið hérlendis fyrr. Atorvastatin Calcium, öðru nafni Atacor, hefur verið fáanlegt á Íslandi síðan 2006, en Ísland var fyrsta landið í heiminum þar sem samheitalyfið frá Actavis kom á markað.   Atorvastatin seldist meira en nokkuð annað lyf í heiminum á árinu 2008, fyrir um 9,3 milljarða evra, eða sem nam tæpum 2% af allri lyfjasölu heimsins í fyrra. Salan á Spáni nam um 396 milljónum evra á sama tímabili (IMS Health).   Hjartalyfið Ramipril, sem flutt var út frá Íslandi í fraktvélum þegar einkaleyfi runnu út í Þýskalandi, Bretlandi og Danmörku í janúar 2004 er enn í dag söluhæsta lyf Actavis samstæðunnar í Evrópu. Sú sending var stærri í magni en sendingin nú, en verðmæti hverrar einingar er töluvert meira nú en þá.