Ákveðið hefur verið að sameina fyrirtækin A. Karlsson ehf., Besta ehf., á Íslandi og UAB Ilsanta í Litháen, frá og með 1.maí næstkomandi segir í tilkynningu frá Atorku.

Unnið hefur verið að þessum breytingum undafarnar vikur og er þetta liður í breytingum innan Atorku sem er eigandi allra þriggja fyrirtækjanna. Fyrirtækin þrjú eru öll í tengdum rekstri og markmiðið með sameiningunni er meðal annars að bæta enn þjónustuna við markaðinn, ná auknu hagræði í rekstri, breikka vöruúrvalið og sækja fram á nýja markaði segir í tilkynningunni.

A. Karlsson ehf., sérhæfir sig í búnaði, rekstrarvörum og þjónustu við stofnanir á heilbrigðissviði, mötuneyti, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Besta ehf., er með víðtækt vöruúrval og lausnir fyrir fyrirtæki með áherslu á hreinlætis- og rekstrarvörur. UAB Ilsanta er með víðtækt vöruúrval á heilbrigðissviði í Eystrasaltslöndunum þremur.

A. Karlsson ehf., og Besta ehf., verða sameinuð hér á Íslandi en UAB Ilsanta í Litháen verður rekið sem dótturfyrirtæki sameinaðs fyrirtækis. Sameiginleg velta þessara fyrirtækja í dag er um 3 milljarðar króna og í þeim starfa um 100 starfsmenn.

Forstjóri sameinaðs fyrirtækis verður Linda Björk Gunnlaugsdóttir. Linda hefur undanfarið verið framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Skeljungs en gegndi áður ýmsum stjórnarstöðum innan Eimskips m.a. sem framkvæmdastjóri Eimskips í Færeyjum.