Íslenskir Fjallaleiðsögumenn ehf. hafa gert samning um kaup á Íslenskum ferðamarkaði ehf. (Icelandic Travel Market) fyrir milligöngu Saga Capital Fjárfestingarbanka. Jafnframt hafa eigendur Íslenskra Fjallaleiðsögumanna og Iceland Rovers (Íslandsflakkarar ehf.) undirritað samkomulag um sameiningu að því er kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að nýtt sameinað fyrirtæki verður rekið undir nafni Íslenskra Fjallaleiðsögumanna. Höfuðstöðvar fyrirtækisins verða að Vagnhöfða 7 í Reykjavík og framkvæmdastjóri verður Elín Sigurveig Sigurðardóttir, núverandi framkvæmdastjóri Íslenskra Fjallaleiðsögumanna.

"Með sameiningu þessara þriggja félaga verður til eitt öflugasta fyrirtæki landsins í rekstri og sölu göngu-, hvata- og ævintýraferða, með afar fjölbreytt vöruframboð. Fyrirtækið mun sérhæfa sig í ferðum á Íslandi og erlendis og rík áhersla verður lögð á útivist, náttúru og menningu. Starfstöðvar fyrirtækisins verða í Reykjavík, Skaftafelli og við Sólheimajökul. Núverandi eigendur og stofnendur Íslenskra Fjallaleiðsögumanna og Iceland Rovers munu starfa áfram hjá sameinuðu fyrirtæki," segir í tilkynningu.

Samanlagður farþegafjöldi Íslenskra Fjallaleiðsögumanna og Iceland Rovers á árinu 2007 var um 13.000 manns. Um 15 föst stöðugildi verða hjá sameinuðu fyrirtæki en yfir 150 manns starfa við leiðsögn og akstur hjá fyrirtækinu. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru einstaklingar og fyrirtæki erlendis og á Íslandi.

Saga Capital Fjárfestingarbanki hafði milligöngu um viðskiptin og sölutryggði jafnframt lánsfjármögnun vegna kaupanna með það að markmiði að styðja við frekari uppbyggingu fyrirtækisins. Þó fyrirtækið sameinist undir hatti Íslenskra Fjallaleiðsögumanna verða áfram seldar dagsferðir og hvataferðir í nafni Iceland Rovers og Íslenskur ferðamarkaður (Iceland Travel Market), sem staðsettur er í Bankastræti 2, í gömlu Bernhöftstorfuhúsunum, verður rekið sem sjálfstæð eining.

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn var stofnað árið 1994 og hefur sérhæft sig í gönguferðum á skriðjökla og hæstu tinda landsins, sem og í lengri gönguferðum hér heima og erlendis. Iceland Rovers var stofnað árið 1997 og hafa sérhæft sig í afþreyingu, hvata- og jeppaferðum, auk hópeflis og menningartengdri ferðaþjónustu. Íslenskur ferðamarkaður er sérhæft þjónustufyrirtæki við erlenda ferðamenn sem selur fjölbreytt úrval dagsferða, skoðunarferða og afþreyingar. Félagið byggir á grunni gamla Tourist Information Center sem rekið var af ríkinu. Félagið hét áður Kleif ferðamarkaður. Seljendur eru Hjálmar Pétursson og tengdir aðilar.