*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 3. febrúar 2006 11:13

Þrjú kauptilboð berast í Iceland Express

það hæsta í kringum 3,7 milljarðar króna

Ritstjórn

Þrjú kauptilboð hafa borist í Iceland Express á bilinu þrír til fjórir milljarðar króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kaupþing banki hefur umsjón með söluferlinu og óskuðu um sjö fjársterkir aðilar eftir upplýsingum um félagið, en skiladagur tilboða rann út á þriðjudaginn.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að hæsta tilboðið sé í kringum 3,7 milljarðar króna. Jóhann Pétur Reyndal, starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka, sagðist ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu.

Seljandinn, eignarhaldsfélagið Fons, réð Kaupþing banka til þess að finna kaupendur að Iceland Express þegar ljóst varð að samningar hefðu náðst við FL Group um að kaupa Sterling-flugsamstæðuna fyrir 15 milljarða króna og að greitt yrði að hluta til með bréfum í FL Group, samkeppnisaðila Iceland Express.

Fons sameinaði norræna lággjaldaflugfélagið Sterling og danska félagið Mærsk Air á síðasta ári og samþykkti síðan að selja FL Group, sem fjármagnaði kaupin að hluta til með 44 milljarða króna hlutabréfaútboði.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að þeir aðilar sem talist geta verið kaupendur að félaginu hafi fjárhagslega getu til að kaupa Iceland Express og að þeir tengist ekki núverandi eigendum eða samstarfsaðilum þeirra.

Viðsnúningur hefur verið á rekstri Iceland Express og talið er að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) verði rúmlega 300 milljónir á árinu 2005, samanborið við 300 milljóna króna tap árið 2004. Sérfræðingar segja að útlit sé fyrir að reksturinn á þessu ári muni ganga enn betur og að félagið sé komið til að vera á íslenskum flugmarkaði.

Þær verðhugmyndir sem voru viðraðar í upphafi söluferlisins eru á bilinu þrír til fjórir milljarðar króna, sem er um það bil tíu sinnum EBITDA, sem sumir sérfræðingar telja að sé of hátt ef miðað er við EBITDA síðasta árs, en benda á að verðið geti verið raunhæft ef væntingar um rekstrarárangur á þessu ári standast. Hæsta kauptilboðið gefur til kynna að vísbendingar séu um að reksturinn verði í takt við væntingar, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.