Þrjú tilboð bárust í hönnun virkjana í Þjórsá samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landsvirkjunar. Hönnunarvinnunni er skipt í tvo áfanga. Í fyrri áfanga, sem hefst í lok mars 2007 og lýkur í mars 2008, felst hönnun allra virkjananna fyrir útboð, gerð útboðsgagna og aðstoð við verkkaupa á útboðstíma, auk nokkurra minni verkefna.

Í seinni áfanga, sem er áætlaður frá október 2007 og fram á árið 2011, felst lokahönnun allra virkjananna, gerð vinnuteikninga, rýni á hönnun verktaka og aðstoð á byggingartíma. Útboð á hönnuninni felur ekki í sér neinar eiginlegar framkvæmdir á virkjunarstað.

Tilboð bárust frá þremur aðilum.

1. Línuhönnun, Mott Mc Donald Ltd., Norconsult AS, Suðurlandsbraut 4a
2. Lower Þjórsá Engineering Joint Venture, Fellsmúla 26
3. VST, VGK-Hönnun og RT, Ármúla 4

Tilboðin eru tvískipt, annars vegar tæknilegt og hins vegar fjárhagslegt tilboð.

Á næstu vikum mun matsnefnd Landsvirkjunar fara yfir tæknilegu tilboðin. Í framhaldi af því verða fjárhagsleg tilboð opnuð.