*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Fólk 19. nóvember 2017 19:04

Rjúpan bjargar jólunum

Helga Friðriksdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns þjónustusviðs bílaumboðsins Öskju.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Askja hefur ráðið Helgu Friðriksdóttur til forstöðu fyrir þjónustusviði bílaumboðsins, en hún kemur frá Landsbankanum þar sem hún gegndi lengst af starfi forstöðumanns bíla- og tækjafjármögnunar. Áður en hún byrjaði að vinna hjá Landsbankanum hafði hún meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Tæknivali, en einnig sem deildarstjóri hjá Eimskip.

„Það má segja að í gegnum þessi störf mín hafi bíllinn verið rauður þráður, frá því að fylla á bíla, flytja bíla og fjármagna bíla og er ég nú komin í hjarta bílabransans.“ Þjónustusvið Öskju sinnir öllu sem við kemur bílunum eftir söluna en á sviðinu starfa um 75 starfsmenn á fólksbíla- og atvinnubílaverkstæði auk varahlutasölu.

„Við sinnum hvers kyns þjónustu, viðhaldi og viðgerðum á bílnum, allt frá minnstu rafbílum yfir í stærstu trukkana, fyrir bæði MercedesBenz og Kia.“ segir Helga, en þónokkrar breytingar eru í gangi hjá fyrirtækinu sem er hvort tveggja að stækka við sig á núverandi stað til að þjónusta bíla Mercedes-Benz og svo er verið að byggja nýtt húsnæði undir starfsemi Kia.

Helga er gift Knúti Bjarnasyni og saman eiga þau tvær stelpur sem eru 23 ára og 19 ára, en fótbolti og golf eru sameiginleg áhugamál fjölskyldunnar.

„Ég æfði sjálf fótbolta sem og stelpurnar, og svo var ég um tíma í mótanefnd KSÍ. Ég spila stundum enn þó ég sé komin af léttasta skeiðinu, en við stelpurnar í Landsbankanum tókum alltaf þátt í árlegu bankamóti,“ segir Helga sem varð fimmtug á árinu en af því tilefni hyggst fjölskyldan skreppa til Flórída yfir jólin.

„Mér finnst rosalega gaman að halda jól á Íslandi með rjúpum og tilheyrandi en við ákváðum að breyta til einu sinni. Þetta verður svona golfferð fjölskyldunnar og eflaust hellingskeppni milli okkar fjölskyldumeðlimana í því, en stelpurnar æfðu báðar líka golf.

Kannski við tökum vakúmpakkaða rjúpu með ef veiðar eiginmannsins og labradorshundsins Stubbs ganga vel, en þá höfum við fjórar helgar til að bjarga jólunum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.