Ólafur Snorrason framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. á Selfossi, segir verkefnastöðuna bærilega fram á næsta haust. Fyrirtækið vinnur nú m.a. að gerð Bræðratunguvegar sem miðar vel.   „Við gætum þó gert miklu meira. Við erum með þetta verk í Bræðratunguvegi og svo höfum við verið í samstarfi við Jáverk í fimmta áfanga Hellisheiðarvirkjunar. Það er nokkuð stórt verk þannig að við erum bærilega settir fram á næsta haust.”

Ólafur segir að í fyrrasumar hafi starfað um 90 manns hjá fyrirtækinu. “Við þurftum svo að fækka í fyrravetur niður í 35. Síðan fjölguðum við aftur upp í 75 í sumar og erum eitthvað rúmlega 70 núna.”