Talið er að níutíu prósent af allri ópíumframleiðslu heimsins eigi sér stað í Afganistan og afleiðingar hennar eru víðtækar. Spillingin og glæpirnir sem fylgja ræktuninni grafa undan getu stjórnvalda til þess að fara með völdin í landinu auk þess sem að hún fjármagnar uppreisn talibana. Tilraunir stjórnvalda á Vesturlöndum til þess að beina landbúnaði Afganistan á aðrar brautir hafa gjörsamlega mistekist þrátt fyrir að miklu fé hafi verið varið til verkefnisins. Hátt verð fyrir valmúann reynist fátækum bændum freisting, og auk þess hafa harðar aðgerðir eins og að eyðileggja ræktunarsvæði plöntunnar aukið samúð þeirra með málstað talibana.

Víðtækar afleiðingar ópíumræktunarinnar og misheppnaðar tilraunir til þess að uppræta hana hefur gert það að verkum að ráðamenn leita nýrra leiða til þess að leysa málið. Þýska blaðið Der Spiegel sagði frá því á dögunum að stjórnvöld víðsvegar í Evrópu ásamt fulltrúum Atlantshafsbandalagsins (NATO) íhuguðu róttæka nýja leið til þess að stemma stigu við ópíumræktinni: lögleiða framleiðsluna. Hugmyndin felur það í sér að fátækir bændur sem rækta valmúa í stað annarra nytjaplantna geti selt hann til lögverndaðra aðila fyrir sama verð og þeir fá frá eiturlyfjabarónum. Þeir sem hafa heimild til að kaupa afurðina af bændunum myndu svo selja hana áfram til lyfjafyrirtækja til framleiðslu á verkjastillandi lyfjum. Der Spiegel hefur eftir hershöfðingja NATO að leita verði nýrra leiða í baráttunni enda blasi það við að tilraunir til þess að uppræta ræktunina hafi litlu skilað til þessa.

Tölur frá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) benda til þess að svo sé. Samkvæmt SÞ jókst framleiðsla á ópíum í Afganistan um 49% í fyrra og talið er að um þrír milljarðar Bandaríkjadala af hagnaðinum í tengslum við framleiðsluna renni til uppreisnarmanna talibana. Á sama tíma eru margir innan stjórnkerfisins sagðir nátengdir fíkniefnabransanum sem valmúaræktunin byggir á, þeirra á meðal bróðir Hamid Karzai, forseta landsins.