Reiknistofa lífeyrissjóða (RL), sem er í eigu ellefu lífeyrissjóða, hefur ákveðið að taka yfir rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakims. Hefur starfsfólk Init ehf. verið upplýst um þá ákvörðun en samningi aðila um rekstur Jóakims var sagt upp í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RL.

Jóakim og Init komust í hámæli fyrr á þessu ári þegar fregnir voru sagðar af því að félagið hefði mögulega ofrukkað RL fyrir að þjónusta kerfið og látið fjármuni renna áfram til eigenda félagsins. Úttekt EY á samningi aðila leiddi í ljós, að því sagt var frá í sumar, að Init hefði brotið gegn samningi aðila en þar hefði vegið þyngst að nýta undirverktaka án heimildar RL.

Í tilkynningu RL segir að stefnt sé að því að draga úr kostnaði við rekstur Jóakims til lengri tíma með því að einfalda rekstrarfyrirkomulag. Lögð verður áhersla á að tryggja öruggan rekstur þess og öryggi þeirra gagna sem kerfið heldur utan um.

„Á næstu mánuðum verður unnið að yfirfærslu rekstrarins með starfsfólki Inits sem hafa síðustu árin séð um rekstur og þróun Jóakim tölvukerfisins. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi aðkomu þeirra að rekstrinum, enda býr starfsfólkið yfir yfirgripsmikilli þekkingu á Jóakim kerfinu sem og lífeyriskerfinu í heild sinni,“ segir í tilkynningunni.