,,Þegar verðbólur hætta að stækka þá eru fjármálakreppur óhjákvæmilegar,” segir Robert Aliber, fyrrverandi prófessor við Chicago háskóla.

Robert heldur nú fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hann fjallar um helstu verðbólur í heiminum og heimskreppur á síðustu tuttugu árum. Hann segir að fjármálakreppur séu bein afleiðing af verðbólum. Hann segir útlánabóluna á Íslandi á undanförnum árum vera þá stærstu sem sést hefur í heiminum, en skilgreining hans á útlánabólu er þegar útlán í bankakerfinu vaxa um 20-30% á ári.

Þegar Aliber kom hingað til lands í júní 2007 og sá verð á veitingahúsum segist hann hafa komist að þeirri ályktun að krónan væri ofmetin um 20-30%.

Hann segir að aukin eftirspurn eftir fjármálagerningum lands af hálfu erlendra fjárfesta leiði til ofmats á gjaldmiðli þess lands. Það leiði einnig til aukningar á viðskiptahalla þess lands og mikillar aukningar í einkaneyslu. ,,Viðskiptahallinn á Íslandi undanfarin ár er örugglega einn sá mesti sem sést hefur í heiminum," segir Aliber. Hann segir viðskiptahallann hafa verið svona gríðarlega háan vegna þess að krónan var of sterk og innflutningur þar af leiðandi mjög ódýr. Aliber segir að einkaneyslan hér á landi á árunum 2002-2007 hafi verið yfirgengileg í samanburði við verga landsframleiðslu Íslands. Hann segir Ísland klassískt dæmi um þegar verðbólur leiða til fjármálakreppu. Hann segir að eitt einkenna af þessu sé að sparnaðarhlutfallið lækkar, sem var raunin hér á landi.

Aliber kom hingað til lands í maí á þessu ári og varaði við því sem nú hefur reynst raunin, kreppu í bankakerfinu og efnahagslífinu.

Aliber segir góðu fréttirnar þær að framleiðslugeta Íslands hafi ekki borið hnekki vegna efnahagshrunsins. Hann segir að orkan, álið, mannauðurinn og það sem skiptir máli fyrir raunhagkerfið sé enn til staðar.

Hann segir þó að leiðrétting sé óhjákvæmileg. Leiðréttingin á íslenska hagkerfinu muni m.a. endurspeglast í því að viðskiptahalli breytist í afgang af utanríkisviðskiptum. Þá muni þjónustuhagkerfið minnka og framleiðsla vöru og þjónustu og útflutningur taka við. Óhjákvæmilegt sé að krónan veikist og að Íslendingar muni ferðast minna en ferðamenn muni streyma til landsins vegna hagstæðrar krónu. Hann segir einnig að verðbólga muni aukast.