Róbert Guðfinnsson, einn af eigendum félagsins Rauðku á Siglufirði er Brautryðjandinn 2013, að mati Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hann tók í dag á móti  viðurkenningunni frá Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Sigríði Ingvarsdóttur framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Róbert hefur unnið að mikilli uppbyggingu á Siglufirði í gegnum árin.

Í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð segir m.a. að með viðurkenningunni vilji Nýsköpunarmiðstöð Íslands verðlauna Róbert meðal annars fyrir lofsvert framtak og uppbyggingu á Siglufirði síðustu ár. Róbert hefur verið driffjöður framkvæmdanna.

Þar er um að ræða gömul hús sem tengjast útgerð og síldarveiðum sem hafa verið endurbyggð, máluð í fallegum og skærum litum og þau gædd nýju lífi. Þá eru áform um að reisa á Siglufirði bæði hótel í sama stíl og hefja rekstur lyfjaverksmiðju í gömlu húsnæði bátasmiðjunnar. Sömuleiðis er búið að gera samninga um myndarlega uppbyggingu á skíðasvæði Siglfirðinga og nýjan golfvöll sem liggur að rótum nyrstu skógræktar landsins, eins og segir í rökum Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir valinu.

Táknmynd viðurkenningarinnar sem veitt var er í formi listaverks eftir Eddu Heiðrúnu Bachman. Verkið málaði hún sérstaklega fyrir þessa viðurkenningu og kallaði fram með glaðlegum og dökkum litum þau skin og skúri sem allir Brautryðjendur ganga í gegnum. Edda Heiðrún er sjálf brauðryðjandi á sviði listarinnar en hún hefur í nokkur ár málað verk sín með pensil í munni.