Í máli þrotabús Mainsee Holding ehf. gegn Glitni HoldCo ehf., sem er fjármagnað af Björgólfi enda ekkert í búinu, er riftunar krafist á tilfærslu kröfunnar á Salt frá Mainsee til Glitnis. Telur skiptastjóri búsins, Sveinn Andri Sveinsson, að uppfyllt séu skilyrði almennu riftunarreglunnar í gjaldþrotaskiptalögunum.

Um ótilhlýðilegan gjörning hafi verið að ræða og Glitni sem kröfuhafa til verulegra hagsbóta. Þá er það mat skiptastjórans að gjörningurinn hafi einnig komið Róberti Wessmann vel eða til lækkunar sjálfs-ábyrgðarskuldar hans. Á móti hafi helmingur kröfunnar ekki komið til lækkunar sjálfsábyrgðar Björgólfs.

Verðlaus krafa á bókfærðu virði

„Þetta eru tveir aðilar með sitt hvora pro rata ábyrgðina. Það er ekki annað að sjá en að hinn ábyrgðarmaðurinn hafi fengið eftir algjöra eftirgjöf skuldar sinnar, meira og minna alltént. […] Það liggur ekkert fyrir um hvernig ráðstöfun fjármuna var háttað við uppgjör við Róbert Wessmann. Það er einhver „heildarpúllía“ og svo komu einhverjir peningar og algert hipsumhaps hvert þeir fóru,“ sagði Sveinn Andri í málflutningsræðu sinni.

Meðal þess sem skiptastjórinn velti fyrir sér var hvers vegna í ósköpunum umrædd krafa hefði verið færð til Glitnis en ekki skilin eftir í verðandi þrotabúi. Úr því að krafan var færð á milli félaga, hvers vegna í ósköpunum var hún þá færð á milli á bókfærðu virði þegar fullkomlega var ljóst, að mati Glitnis, að ekki fengist króna upp í hana.

„Ég er ekki mjög bókhaldsfróður en það er býsna skrítið að færa yfir til banka kröfu upp á 6 milljónir evra, sem menn meta sem núll, og lækka á móti kröfu bankans á félagið. Það fái að greiða 6 milljónir evra af bankaláni með kröfu sem er einskis virði. […] Það hentaði Glitni betur að í staðinn fyrir að afskrá kröfuna í Mainsee, þá var hún færð í móðurfélagið svo menn gætu veifað henni í samningaviðræðum við Salt og Róbert Wessmann,“ sagði Sveinn Andri. Með þessari aðgerð hafi verið komið í veg fyrir að þrotabúið hefði getað reynt að innheimta téð skuldabréf og gjörningurinn því rýrt verðgildi þess.

Glitnir HoldCo krefst sýknu í málinu. Í máli lögmanns félagsins, Ragnars Björgvinssonar, og vitnisburðum fyrrverandi starfsmanna kom fram að ekkert óeðlilegt hefði átt sér stað og þetta verklag hafi verið alvanalegt. Glitnir hafi verið alltumlykjandi í starfsemi Mainsee og fleiri félaga sem Glitnir fékk í fangið. Í raun hafi litlu máli skipt hvort Glitnir ætti 48 milljóna evra kröfu eða 42 milljóna evra kröfu. Aðeins hafi verið stefnt að því að „einfalda strúktúr“ Mainsee áður en það yrði keyrt í óumflýjanlegt gjaldþrot.

„Mál þetta er sérstakt fyrir nokkurra hluta sakir. Hér er krafist riftun á ráðstöfun sem átti sér stað fyrir meira en níu árum síðan. Af þeim sökum er erfitt að taka til varna og afla gagna til að varpa réttu ljósi á mynd málsins. Þá er sérstakt að með réttu ætti aðeins einn kröfuhafi að eiga samþykkta kröfu í búið,“ sagði Ragnar í málflutningsræðu sinni. Sagði hann að fundargerðir sérlánanefnda Glitnis frá þessum tíma sýndu að um eðlilega ráðstöfun hefði verið að ræða og þá hefði það komið skýrt fram í vitnaskýrslum. Þá færi ekki saman hljóð og mynd í málinu nú og fyrra máli Björgólfs gegn Róberti. Þar hafi verið byggt á því að umrædd krafa á Salt hefði verið fullkomlega verðlaus en í máli skiptastjórans nú hefði verið byggt á því að mögulegt hefði verið að fá eitthvað út úr henni. Skilyrði riftunarreglunnar væru heldur ekki uppfyllt enda hefði gjörningurinn leitt til skuldalækkunar fyrir þrotabúið en ekki skuldahækkunar auk þess að ekkert við ráðstöfunina hefði verið ótilhlýðilegt.

Í skýrslutökum af vitnum spurði Sveinn Andri fyrrverandi starfsmann Glitnis, Kristján Óskarsson, að því hvernig fjármunum samkvæmt uppgjöri Glitnis og Róberts Wessmann hefði verið ráðstafað. Í vætti Kristjáns kom fram að það hefði ráðist af heildarmati hvort aðilar hefðu verið settir í þrot eður ei. Ef hægt hefði verið að sýna fram á að meira fengist með samningum í stað þrots hefði sú leið verið farin. Hann vildi þó ekki fara nákvæmlega út í einstök efnisatriði skuldauppgjörs Róberts við Glitni en samkomulagið er ekki meðal sönnunargagna málsins. Þess í stað var það lagt fyrir dómara málsins í trúnaði. „Ég held ég geti þó sagt það að greiðslur sem komu í sambandi við Róbert Wessmann komu ekki frá honum sjálfum heldur frá öðrum aðilum. Það að keyra hann í þrot hefði skilað mun minna,“ sagði Kristján.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .