„Þetta afhjúpar virðingarleysi fyrir þeim ferlum sem ákveðið hefur verið að ráðast í á Alþingi. Það er eitthvað sem við verðum að láta af í pólitík,“ segir þingmaðurinn Róbert Marshall, varamaður í utanríkismálanefnd Alþingis. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í nefndinni mynduðu meirihluta í henni með Jóni Bjarnasyni, þingmanni og fyrrverandi ráðherra VG þegar þeir samþykktu að setja aðildarviðræður við Evrópusambandið á ís og láta þjóðina kjósa um það hvort og hvenær þær hefjist á ný.

Enn á eftir að ræða tillöguna betur í nefndinni og afgreiða hana úr nefndinni sem þingsályktunartillaga. Þá á eftir að koma henni á dagskrá þingsins.

Ekki sáttir

Stjórnarliðar eru allt annað en sáttir við störf minnihlutans í nefndinni og samvinnu Jóns með henni. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður VG, sagði á Alþingi í morgun Jón hafa brotið reglur enda hafi hann ekki borið málið fyrst undir þingflokk VG. Hann sagði málið verða rætt í þingflokknum. Hann vildi ekki tjá sig nánar um málið í samtali við vb.is.

Róbert undrast jafnframt ákvörðun minnihlutans í utanríkismálanefnd og leggur áherslu á að meirihlutinn hafi ákveðið að fara í aðildarviðræður sem þurfi að ljúka. Hann bendir á að þjóðin muni fá að segja sitt þegar aðildarsamningur verði lagður fyrir hana.

„Það er mjög óheppilegt að menn skuli ekki bera meiri virðingu fyrir þeim ákvörðunum sem meirihlutinn hefur tekið. Það er ósiður,“ segir Róbert í samtali við vb.is