Róbert Wessmen fer með óbeinan 39% hlut í Alvotech samkvæmt nýjum upplýsingum um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá.

Alvotech var metið á um 150 milljarða króna þegar japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma keypti 4% hlut í Alvotech á ríflega 6 milljarða króna árið 2018. Því má áætla að óbeinn hlutur Róberts í félaginu sé metinn á um 60 milljarða króna.

Stefnt væri að því að skrá Alvotech á markað fyrir lok næsta árs samhliða hlutafjárútboði í félaginu. Helst er horft til kauphallanna í Hong Kong eða New York.

Alvogen systurfélag Alvotech, á sjálft 29% hlut í Alvotech. Morgunblaðið fjallaði um það árið 2018 að óbeinn hlutur Róberts í Alvogen væri 22% og sá hlutur væri allt að 90 milljarða króna virði miðað við verðmat komið frá heimildarmönnum Bloomberg á félaginu. Því kann samanlagður hlutur Róberts í Alvogen og Alvotech að vera metinn á vel á annað hundrað milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Alvotech á Aztiq Pharma Partners, fjárfestingarsjóður í Lúxemborg, 63% hlut í Alvotech. Samkvæmt skrá yfir raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá Lúxemborgar frá því í ágúst eru Róbert, börn hans og fyrrverandi eiginkona skráð með yfirráð yfir 67,88% hlut í Aztiq Pharma Partners í gegnum sjálfseignarsjóð. Í umfjöllun Morgunblaðsins árið 2018 kom fram að hlutur Róberts í Alvogen væri í gegnum Aztiq Pharma Partners. Róberts deildi eignarhlutnum með börnum og fyrrverandi eiginkonu, sem væri endanlega í sjálfseignarsjóðnum Hexalonia Trust á eyjunni Jersey í Ermarsundi í gegnum félögin Hexalonia Holdings S.A. í Lúxemborg og Hexalonia Investments ltd. á Jersey.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .