Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir, sem bæði voru þingmenn fyrir Bjarta framtíð á síðasta kjörtímabili, hafa bæði skráð sig úr flokknum. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins .

Hvorki Róbert né Brynhildur sóttust eftir sæti á Alþingi á þessu ári og tekið er fram í fréttinni að ákvörðun þeirra hafi ekki verið tengd stjórnmálum né þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem standa yfir milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Róbert Marshall, sem var þingmaður fyrir Samfylkinguna og jafnframt aðstoðarmaður samgönguráðherrans Kristjáns Möller hyggst snúa sér aftur í fjölmiðlaheiminn, segir hann í viðtali við fréttastofu RÚV. Brynhildur ætlar að snúa sér aftur að verkefnum tengdum neytendamálum. Hún vann áður hjá Neytendasamtökunum.

Brynhildur sat á þingi fyrir Bjarta framtíð frá 2013 til 2016. Hún var jafnframt formaður þingflokks Bjartrar framtíðar á árunum 2015 til 2016.