Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi Alvotech, opnaði í gær við hátíðlega athöfn skrifstofu fjárfestingafélagsins Aztiq í Hammersmith hverfinu í London.

Aztiq er leitt af Róberti en félagið er aðaleigendi lyfjafyrirtækjanna Alvogen og Alvotech. Stefnt er að því að síðarnefnda félagið verði senn skráð á markað . Þá hefur Aztiq einnig fjárfest í fasteignum og öðrum geirum hér á landi.

„Það veitir mér mikla ánægju að opna nýju skrifstofu okkar fyrir samstarfsfólki og samstarfsaðilum. Við höfum átt frábært ár og því vildum við nýta tækifærið og hittast og fagna árangrinum,“ er haft eftir Róberti í tilkynningu .

Í tilkynningu kemur fram að meðfjárfestar, stjórnarmenn, starfsmenn og stjórnendur ýmissa Aztiq félaga hafi verið viðstaddir ásamt blaðamönnum og fleiri haghöfum. Skrifstofan sé hugsuð sem miðstöð fyrir starfsmenn Alvo félaganna og aðra tengda aðila. Á skrifstofunni er 500 fermetra vinnurými hugsað fyrir um 16 manns ásamt fundarherbergjum.