Þegar talið berst að Íslandi segist Robert Parker, aðalráðgjafi Credit Suisse, helst óttast það hversu langan tíma muni taka að endurreisa ávöxtunarmarkað fyrir fjárfesta. Nú þegar sé þetta orðið að stóru vandamáli. "Ég heyri á þeim sem ég hef rætt við á Íslandi, að fáir fjárfestingakostir, ekki síst fyrir lífeyrissjóði, eru farnir að hafa verulega mikil neikvæð áhrif á íslenska hagkerfið," segir Parker. Vitnar hann til þess að hlutabréfamarkaðurinn sé búinn að vera lengi í hálfgerðu skötulýki og almennt séu fjárfestingarmöguleikar of fáir, ekki síst vegna gjaldeyrishafta. Varðandi stöðu mála hér á landi almennt segir hann að horfurnar séu bæði neikvæðar og jákvæðar. "Efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur um margt gengið vel og það eru mikilvæg tímamót að formlega sé samstarfinu lokið. Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt að koma gjaldeyrishöftunum á við þær aðstæður sem hér sköpuðust. Annað hefði haft of víðtækar og alvarlegar afleiðingar á fjárhag fyrirtækja og heimila. Hins vegar þarf að setja upp raunhæfa og tímasetta áætlun um afnám hafta innan næstu þriggja ára. Ég veit að það hefur verið sett af stað áætlun um afnám haftanna, en ég er ekki sannfærður um að hún muni hraða afnáminu nógu mikið."

Parker segir enn fremur að skortur sé á heildstæðri stefnu um hvernig vandamálin sem séu fyrir hendi verði leyst. Slík áætlun eyði óvissu. "Skýr stefna, framtíðarsýn, um hvert skuli stefna er það sem þarf að vera fyrir hendi. Sú áætlun þarf að byggjast á því að koma fjármagni á meiri hreyfingu til þess að styrkja ávöxtunarmöguleika fyrir fjármagn og auka útlánamöguleika fyrir bankakerfið, samhliða afnáms hafta. Horfa þarf til næstu þriggja ára hvað þetta varðar. Enn fremur þyrftu stjórnvöld að útfæra skattalækkun á fyrirtæki til þess að gera þeim auðveldara fyrir við endurreisnina. Sé það gert rétt, ætti það ekki að grafa undan tekjum ríkissjóðs á viðkvæmum tíma heldur þvert á móti auka þær. Um leið og fyrirtækin fá meiri byr í seglin. Ísland hefur virkilega sterka innviði og framtíðarmöguleika. Skortur á raunhæfum langtímaáætlunum er það sem mér finnst helst vanta svo að fjárfestar, innlendir sem erlendir, treysti sér til þess að koma hlutunum af stað með fjárfestingu."

Ítarlegt viðtal er við Robert Parker í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð.